148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[19:18]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki óyggjandi sannanir fyrir því að slíkar aðgerðir hafi verið gerðar í heimahúsum. En ég tel mikilvægt að með þessari umræðu sem við tökum nú á Alþingi, með því að leggja fram, hið minnsta, þetta mál og fara yfir þessa hluti fáum við fram umræðu og það hefur verið gríðarlega mikil og almenn umræða síðustu daga eftir að málið var lagt fram um þessar aðgerðir og sérstaklega vegna þess, líkt og hjá mér sjálfri, er fólk almennt ekki að hugsa um þetta og er ekki meðvitað um að umskurður sé leyfilegur á drengjum. Fólk er ekkert að velta því fyrir sér. Ég held að þessi umræða hjálpi hvað varðar upplýsingar og meðvitund. Ef slíkar aðgerðir eru gerðar og einhver verður var við eitthvað, dagforeldrar eða aðrir sem koma að umönnun barna utan fjölskyldunnar, séu menn vakandi fyrir þessu.

En nei, ég hef ekki staðfestar heimildir fyrir því.