148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Síðastliðið þriðjudagskvöld var tekin skyndileg ákvörðun um að samþykkja sölu á hlut ríkisins í Arion banka. Tímasetningin skiptir máli. Með því að taka ákvörðun það kvöld var hægt að byggja á gömlum tölum í stað nýrra. Það getur skipt máli fyrir væntanlega kaupendur en ekki síst fyrir þingið.

Það er ekkert leyndarmál að kaupandinn, Kaupskil, er að hluta til í eigu vogunarsjóða. Með þessum æfingum eignast fyrirtækið 70% í einum af þremur íslenskum bönkum. Finnst ráðherra að vogunarsjóðirnir hagi sér með eðlilegum hætti? Finnst henni í lagi að slíkir sjóðir, sem fáir vita raunverulega hverjir eiga, eignist meira í bönkunum en orðið er? Af hverju fer salan ekki fram í opnu útboði?

Það er alls óvíst að rétt verð sé fundið fyrir hlutinn. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að þessir 23 milljarðar séu ásættanlegt verð. Er hæstv. ráðherra sammála því að hægt sé að útiloka að ríkið hefði getað fengið meira fyrir hlutinn? Er ráðherra sammála mér um að slík viðbót hefði getað komið sér vel til þess að styrkja veikt velferðarkerfi?

Á síðasta kjörtímabili talaði hæstv. forsætisráðherra um mikilvægi þess að flýta sér hægt, að ákveða með hvaða hætti bankakerfið yrði endurskipulagt. Hún hefur boðað gerð hvítbókar um uppbyggingu og endurskipulagningu bankakerfisins. Hvað breyttist á þessu eina kvöldi? Af hverju er þessi flýtir, hæstv. forsætisráðherra?

Ég vil fá að vita hvort þrýst hafi verið á að menn flýttu sér við söluna og hvaða hagsmuni stjórnvöld og almenningur hafi af þessum flýti. Finnst ráðherra vinnubrögðin í kringum söluna vera til þess fallin að auka traust almennings á stjórnmálum og fjármálakerfinu? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Eru eigendur Arion banka að leika sér að stjórnvöldum?