148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Burt séð frá þessu spyr ég aftur: Eru eigendur Arion banka að leika sér að stjórnvöldum? Selja sjálfum sér hluta í Arion banka og geta ráðið hvort viðskiptin fari fram á raunverulegu virði bankans og komið þannig í veg fyrir að hærri stöðugleikaframlög komi í ríkissjóð og að forkaupsréttur verði nýttur?

Var girt fyrir þetta í samningum um stöðugleikaframlögin árið 2015? Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála að birta þurfi þessa samninga svo það komi þá fram?

Og að lokum: Söluferlið einkennist af ógagnsæi. Örfáir einstaklingar sem fáir vita hverjir fara með mjög mikla hagsmuni í þessum málum. Tengist þetta leikrit Valitor? Er nýtt Borgunarmál í uppsiglingu, hæstv. forsætisráðherra? Erum við enn einu sinni að verða vitni að atburðarás þar sem hagsmunum almennings verður kastað fyrir róða í þágu nokkurra ríkra einstaklinga sem munu maka krókinn?