148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

verð á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og við höfum ítrekað séð og heyrt virðist ríkisstjórnin ekki hafa nokkra einustu stefnu um framtíð fjármálakerfisins nema hæstv. forsætisráðherra hefur lýst miklum áhyggjum af of miklum umsvifum ríkisins á bankamarkaði. Svo miklar áhyggjur virðist ráðherra hafa af þessum umsvifum að hann telur betra að vogunarsjóðir, eða að því er virðist hverjir sem eru, því að ekki er almennilega vitað hverjir eru þarna á bak við, fari með yfirráð yfir kerfislega mikilvægum banka en að ríkið eigi of mikið í bankanum til skamms tíma.

Ríkisstjórnin er fyrir vikið búin að missa öll tök á atburðarásinni. Hún hefur vannýtt þau tækifæri sem hún hefur haft til að grípa inn í, m.a. hefur hún vannýtt þann kauprétt sem ríkið hefur haft með þeim afleiðingum, eins og við sjáum núna og fjallað var um í fyrri fyrirspurn, að þessir aðilar, vogunarsjóðirnir, ganga á lagið og vilja virkja ákvæði úr hluthafasamningi frá 2009, frá því í september 2009. Nokkuð sem hefði aldrei komið til nema vegna þess að ríkisstjórnin var búin að hleypa þeim þetta langt.

Hver eru viðbrögðin? Jú, ég heyrði í viðtali við hæstv. forsætisráðherra að hún lýsti því að þetta væri ekki frágengið, þrátt fyrir að hún ítrekaði áhyggjur sínar af því hve ríkið ætti mikið í bönkunum, því að það ætti eftir að semja um verð og kauprétturinn væri, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, að sjálfsögðu háður því að það tækist að semja um verð.

Nú er því haldið fram af þessum aðilum, að því er mér skilst, að þeir telji að þeir þurfi ekkert að semja um verð við ríkið enda hafi verið samið um það á sínum tíma, að það sé sérstakt ákvæði, sem hefur raunar verið falið að því er virðist, ákvæði 9.4, í þessu samkomulagi þar sem tekið sé fram á hvaða verði ríkið eigi að selja þessum aðilum bankann falist þeir eftir því.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Hvort er rétt? Það sem ráðherrann sagði í viðtali, að það ætti eftir að semja um verð, eða að það liggi fyrir á hvaða verði ríkið eigi að selja?