148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

verð á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég þakka áhyggjur hæstv. ráðherra af heilsu minni en vildi hún hefði eins miklar áhyggjur af heilbrigði fjármálakerfisins á Íslandi. Þar eru sjúkdómseinkennin mjög alvarleg og fer fjölgandi.

Þetta mál virðist á allan hátt frá upphafi hafa verið rekið á forsendum vogunarsjóðanna, hvernig þeir vildu sjá hlutina þróast. Stjórnvöld hafa í engu gripið inn í og fela sig helst á bak við stofnanir, eins og hæstv. forsætisráðherra gerir hér, þegar í raun er um hápólitískt mál að ræða.

Spurningarnar snúa að framtíð fjármálakerfisins á Íslandi og svo leyfir hæstv. ráðherra sér að snúa út úr og halda því fram að ég vilji að ríkið eigi allt fjármálakerfið til framtíðar. Að sjálfsögðu vil ég það ekki. Ég vil hins vegar að ríkið standi vörð um hagsmuni sína sem hefur ekki verið gerst sem skyldi í þessum málum.

Nú virðist hæstv. ráðherra vera orðin ósammála sjálfri sér frá því í viðtali fyrir nokkrum dögum þegar hún hélt því fram að það ætti eftir að semja um verð. Nú er raunin sú að verðið liggur fyrir en hugsanlega ætlar ráðherra að þrátta eitthvað um túlkunina á því verði. Er það sem sagt mat ráðherrans (Forseti hringir.) að þetta sé það óljóst að ríkið eigi eftir að reyna að koma sinni túlkun að? En því miður, herra forseti, óttast maður það í ljósi reynslunnar að þegar túlkunarstríð er í gangi milli þessarar ríkisstjórnar og vogunarsjóðanna (Forseti hringir.) sé alveg ljóst hverjir hafi betur í þeim viðskiptum.