148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

efnisgjöld á framhaldsskólastigi.

[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir áramót gerðust áhugaverðir hlutir í fjárlögum þar sem fellt var úr gildi bráðabirgðaákvæði um gjaldtöku í framhaldsskólum. Við Píratar vorum einmitt með breytingartillögu þess efnis en tillaga stjórnarinnar um að framlengja það ákvæði var, að því er virtist, skyndilega dregin til baka á þingfundi. Á móti vantaði fjármögnun á þeim efniskostnaði sem þá féll út.

Píratar voru að sjálfsögðu með tillögu til fjármögnunar á því ákvæði sem við vildum fella úr gildi, upp á 300 milljónir, en það var upphæðin sem nefndin fékk um efniskostnað sem þar væri undir. Upphófst ákveðið leikhús í baksölum þar sem það var ekki alveg hárnákvæm upphæð, það var eitthvað annað sem lá þar undir en einungis efniskostnaður. Það endaði með því að lögð var fram breytingartillaga um 250 milljónir sem áttu þá að koma í staðinn fyrir þann efniskostnað og bráðabirgðaákvæði sem féll niður.

Nú hefði ég áhuga á að vita, af því að við höfðum ekki tíma þá til að komast að nákvæmri tölu, hver sú tala er; það hlýtur að vera búið að reikna hana út. Til viðbótar: Fyrir hvaða skólaár hefur niðurfelling þessa bráðabirgðaákvæðis áhrif? Væntanlega er það fyrir árið 2018–2019, af því að verið var að fella þetta úr fjárlögum núna. En af því að þetta var fellt úr fjárlögum fyrir áramótin var ég að velta fyrir mér hvort þetta hefði líka áhrif á árið 2017–2018.