148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samkeppnisundanþágur mjólkuriðnaðarins.

[15:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Í fréttum fyrir helgi var fjallað um úttekt Alþýðusambandsins á verðþróun á matvöru á undanförnum tveimur árum. Þar kom fram að verðlagsþróun á mjólkurvörum skæri sig algerlega úr verðþróun á matvöru almennt. Mjólkurvörur höfðu að meðaltali hækkað um 7,4% en önnur matvara í landinu hafði lækkað um 0,6% yfir tveggja ára tímabil.

Nú búum við við lagaumgjörð þar sem samkeppni eru verulegar skorður settar þegar kemur að mjólkuriðnaði. Iðnaðurinn er að stórum hluta undanþeginn ákvæðum samkeppnislaga. Það hefur líka komið fram, í svari við fyrirspurn minni til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að á því tímabili sem liðið er, á þeim 14 árum frá því að þessar undanþágur voru leiddar í lög, hafa mjólkurvörur hækkað í verði umfram alla aðra matvöru í landinu, umfram vísitölu neysluverðs án húsnæðis, umfram aðrar landbúnaðarafurðir eins og kjöt eða grænmeti, sem nemur á bilinu 10–20%, og umfram aðra drykkjarvöru, sem nemur 45% á þessum 14 árum.

Ég held að það þurfi ekki frekari vitnanna við um áhrif samkeppnisleysis í þessum iðnaði.

Mig langar að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þriggja einfaldra spurninga:

Trúir ráðherra á kosti samkeppni þegar kemur að hagsmunum neytenda? Kann ráðherra einhverja aðra skýringu á þessari verðlagsþróun á mjólkurafurðum en einmitt hinn augljósa skort á samkeppni? Er ekki orðið tímabært að breyta þessu fyrirkomulagi í ljósi þess að það hefur svo sannarlega ekki skilað neinum ávinningi fyrir neytendur?