148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samkeppnisundanþágur mjólkuriðnaðarins.

[15:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Mönnum liggur oft mikið á að gera breytingar í landbúnaðinum. Ég minni hv. þingmann á að það tekur tíma og er flókið að vinna með framleiðslu í landbúnaði. Það er eðli málsins samkvæmt langt ferli. Við þekkjum það í sögu okkar hvernig gengið hefur að koma á breytingum á sviði landbúnaðar hér á landi.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta skiptir öll heimili í landinu gríðarlega miklu máli. Þess vegna hljóta það að vera sameiginlegir hagsmunir okkar allra hér að vinna að þeim málum á þann veg að við getum náð fram breytingum í þágu neytenda en ekki síður í þágu þeirra sem hafa kosið að lifa og starfa í þessari atvinnugrein.

Að því leyti til vona ég að við hv. þingmaður getum náð saman varðandi þær breytingar sem fram undan eru í þessum efnum. Ég minni á að enn á ný er hafin endurskoðun (Forseti hringir.) búvörulaga, búvörusamninganna. Ég vænti þess að þessir hlutir komi þar til umræðu.