148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

samgöngur til Vestmannaeyja.

[15:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn og get tekið undir með honum að það er veruleg þörf á að bæta samgöngur til Vestmannaeyja, þessa mikilvæga byggðarlags sem býr eðli málsins samkvæmt við sérstakar aðstæður þegar kemur að samgöngumálum.

Því hefur það einmitt verið keppikefli að reyna að ljúka því að fá nýja ferju og hún sé búin eins og til var ætlast. Eitt af því sem rak á fjörur mínar þegar ég kom inn í ráðuneytið, reyndar ekki fyrr en í janúar, var að það hefur einhverra hluta vegna fyrst og fremst verið reiknað með svokallaðri tvinnferju, að hún yrði ekki rafmagnsferja að öllu leyti, gæti ekki gengið fyrir rafmagni. Mér fannst mikilvægt að koma því á hreint af því að við viljum tryggja það að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum og eitt af tækifærunum í því er auðvitað orkuskipti í samgöngum, að ferjur verði rafmagnsknúnar.

Annað sem við höfum verið að skoða er ýmislegt sem tengist því hvernig íbúarnir geta nýtt ferjuna og skipulag innan þess tíma en alltaf stendur þetta út af sem hv. þingmaður kom inn á, menn panta og ætla sér að fara í gegnum Landeyjahöfn en svo breytist veðrið og þá þurfa menn að fara í Þorlákshöfn með tilheyrandi lengri tíma og kostnaði. Þess vegna hefur það verið í undirbúningi varðandi nýja ferju að gjaldið verði það sama. Þessa hugmynd um hvort ekki sé hægt að flýta þeirri ákvörðun hef ég verið að skoða í ráðuneytinu, m.a. vegna ábendinga hv. þingmanns, og ég er mjög jákvæður gagnvart því að gera það. Við höfum verið að greina kostnaðinn við það, hann er auðvitað óviss vegna þess að það er veðrið sem ræður þar ríkjum. Annar óvissuþáttur í þessu er að við vitum ekki á þessum tímapunkti hvenær ferjan kemur í haust en ég er mjög jákvæður (Forseti hringir.) fyrir því að skoða það hvort við getum ekki gert einhvern skurk í þessu núna á næstu mánuðum, þ.e. áður en nýja ferjan kemur og sumartraffíkin hefst.