148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[15:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Samgöngumál eru mörgum hugleikin þessa dagana og af ýmsu að taka þar. Fókusinn í þessari sérstöku umræðu er á leigubíla, en samkvæmt núgildandi reglugerð um leigubifreiðar teljast þær einmitt til almenningssamgangna. Eins og með svo margt annað í því kerfi er rúm fyrir betrumbætur. Ég hlakka til þess að eiga samræður við hæstv. samgönguráðherra og aðra hv. þingmenn um hugmyndir þeirra að breytingum á þessum markaði, eða rökstuðning fyrir því að óbreytt kerfi sé það besta fyrir almenning.

Sú sem hér stendur er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um frelsi á leigubílamarkaði þar sem lagt er til að samgönguráðherra verði falið að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubílaaksturs, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna markaðinn fyrir aukinni samkeppni.

Tilviljun ræður því að við ræðum þetta mál, leigubílamarkaðinn, í sérstakri umræðu á sama tíma og þingsályktunartillagan kemur fram og sýnir það að tilviljanir geta á stundum verið hreint ágætar.

Til að leigubílar geti sinnt hlutverki sínu í almenningssamgöngukerfinu þarf þjónustan einfaldlega að vera aðgengileg og á viðráðanlegu verði. Að mínu mati er heilbrigð samkeppni lykillinn að því að ná þeim markmiðum. Að þeim uppfylltum gætu fleiri lagt einkabílnum varanlega kjósi þeir svo, gætu nýtt leigubíla og strætisvagna og aðrar almenningssamgöngur í bland til að sinna erindagjörðum sínum með minni kostnaði og minna álagi á vegakerfið okkar, svo fátt sé nefnt.

Meðal þeirra kvaða sem núgildandi kerfi á leigubílamarkaði felur í sér má nefna að leyfishafar þurfa að hafa leigubílaakstur að meginatvinnu. Þetta hindrar því námsmenn og einstaklinga með skerta starfsgetu í að starfa sem leigubílstjórar. Það má líka nefna kröfur um að leyfishafar séu skráðir eigendur bílsins sem þeir aka og að öryrkjar þurfa að framvísa sérstökum meðmælum frá Öryrkjabandalaginu og tryggingayfirlækni. Það hlýtur að vera eðlilegt að velta því upp hvort námskeið og próf til að hljóta atvinnuleyfi á þessum markaði sé ekki nægilegur mælikvarði á hæfni allra einstaklinga til að mega keyra leigubíla.

Það er líka tímabært, herra forseti, að auka frelsi leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu til að velja hvort þeir starfi við leigubílastöð eða starfi sjálfstætt og fella niður gjöld við bið við leigustöðvar.

Loksins er þarft að endurskoða núgildandi reglu um að löggiltir gjaldmælar undir eftirliti Samgöngustofu verði að vera í öllum leigubílum. Þetta ákvæði hamlar nefnilega tæknilegri framþróun á borð við greiðslu í gegnum snjallsímaforrit, en slíkt greiðsluform er lykilþáttur í því að opna íslenskan markað fyrir íslenska neytendur fyrir þjónustufyrirtæki á borð við Uber og Lyft sem margir þekkja að utan. Þetta ákvæði hamlar í raun framþróun á þessum markaði sem eins og menn þekkja er fyrst og fremst í gegnum þessa tækni. Þessi þjónusta byggir á grundvelli samningsfrelsis og kostun deilihagkerfisins, en það er næstum því ótækt að ræða samgöngur í þéttbýli sérstaklega án þess að hafa deilihagkerfið, kosti þess og framþróun, í huga.

Opnun markaðsins á á engan hátt að koma í veg fyrir að þeir sem nýta sér þá opnun standi eins og aðrir á íslenskum vinnumarkaði skil á launatengdum gjöldum og öðrum opinberum gjöldum í takt við lög og reglur þar að lútandi. Hér á landi erum við með nokkuð skýrt regluverk utan um sjálfstæðan atvinnurekstur. Við erum einfaldlega að tala um frelsi með ábyrgð.

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að unnið verði að því að byggja upp almenningssamgöngur um allt land. Ég vil því spyrja hæstv. samgönguráðherra:

Hyggjast stjórnvöld fjölga sérleyfum leigubifreiða samhliða því að draga úr kvöðum að baki leyfunum? Eða hafa þau jafnvel í hyggju að leggja þessi sérleyfi alveg niður, eins og æskilegt væri?

Hyggjast stjórnvöld opna íslenskan leigubílamarkað, m.a. fyrir erlendum aðilum sem hafa reynslu af því að veita bæði ódýra og góða þjónustu?

Ef stjórnvöld hafa ekki í hyggju að breyta núverandi fyrirkomulagi á leigubílamarkaði, hver eru þá helstu rök fyrir óbreyttu fyrirkomulagi?

Að lokum langar mig að kasta fram spurningu til hæstv. ráðherra í tengslum við umræðu sem átti sér stað hér í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem hv. varaþingmaður Viðreisnar, Pawel Bartoszek, var með munnlega fyrirspurn til þáverandi hæstv. ráðherra Jóns Gunnarssonar. Það kom fram í máli ráðherra að Eftirlitsstofnun EFTA hefði að eigin frumkvæði hafið skoðun á þeim lögum og reglum sem gilda um leigubílaakstur hér á landi og að ráðuneyti samgöngumála hefði átt í bréfasamskiptum, vonandi rafrænum, við stofnunina í tengslum við þá skoðun.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra jafnframt frétta af þessari skoðun Eftirlitsstofnunar EFTA (Forseti hringir.) og vinnu ráðuneytisins þar að lútandi.