148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að hefja máls á þessu málefni hér. Það hvað stjórnvöld hyggjast gera svarar bæði fyrstu spurningunni og aukaspurningunni. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið frumkvæðisathugun á leigubifreiðamarkaðnum á Íslandi og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. Það sem stofnunin er helst að skoða er hvort aðgangshindranir felist í ákvæðum íslenskrar bifreiðalöggjafar um fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa á tilteknum svæðum og einnig um kröfu íslenskrar löggjafar um stöðvaskyldu.

Þetta er nákvæmlega sambærileg athugun og hefur þegar átt sér stað á leigubifreiðalöggjöf í Noregi og þar hefur ESA þegar komist að þeirri niðurstöðu í rökstuddu áliti að norsk leigubifreiðalöggjöf, sem er um margt sambærileg þeirri íslensku, feli í sér brot á EES-rétti. Íslensk stjórnvöld hafa átt í talsverðum samskiptum við ESA vegna þessa nú þegar. Það er rétt að geta þess að á öllum Norðurlöndunum, í það minnsta í Danmörku, Noregi og Finnlandi, á sér stað þessa dagana undirbúningur að breytingum á þessu sviði og snúa þær allar að því að fella niður fjöldatakmarkanir og opna landsvæði en til að mynda í Danmörku krefjast menn þess að sala á þjónustu fari engu að síður fram í gegnum leigubifreiðastöð. Mér skilst að þannig sé það einnig í Hollandi.

Ein þeirra aðgerða sem gripið var til til að bregðast við athugun ESA sem og ákalli um aukið frelsi á þessum markaði var að skipa starfshóp, sem forveri minn gerði, sem skyldi endurskoða í heild regluverk um leigubifreiðaakstur. Starfshópurinn skyldi leggja fram tillögur til ráðherra um hvort og þá hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á íslensku regluverki um leigubifreiðaakstur með hliðsjón af áliti ESA gegn Noregi og frumkvæðisathugun á Íslandi.

Starfshópurinn hefur verið að störfum frá því í október sl. og leitast í vinnu sinni við að svara eftirfarandi meginspurningum: Er íslenskt regluverk um leigubifreiðaakstur og framkvæmd þess í samræmi við EES-samninginn? Ef nei, hvaða breytingar leggur starfshópurinn til að gerðar verði á regluverkinu eða framkvæmd þess til að svo megi verða? Er rétt að gera ráð fyrir þjónustu farveitna á borð við Uber og Lyft hér á landi og hvaða breytingar eru nauðsynlegar í íslenskri löggjöf til að svo megi verða?

Starfshópurinn áætlar að skila lokaskýrslu til ráðherra í mars þar sem tekið verður á þessum spurningum og gera tillögur að breytingum á löggjöf. Starfshópurinn hefur leitað umsagna fjölda aðila sem og aflað sjálfstæðs lögfræðilegs álits um þá þætti verkefnisins sem snúa að skyldum Íslands og að EES-rétti. Með öðrum orðum lét ég þennan starfshóp, sem settur var á laggirnar af forvera mínum, halda áfram til að ljúka störfum og hann er kominn af stað. Áfangaskýrslu hefur nú þegar verið skilað en reyndar ekki verið kynnt ráðherra, ekki hefur gefist tími til þess. Ég hef engu að síður lesið hluta af henni. Niðurstöðurnar eru að nauðsynlegt sé að afnema fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa á tilteknum svæðum eins og verið er að gera á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar er nauðsynlegt að réttur til leyfis til að aka leigubifreið sé háður skilyrðum til að tryggja gæði en ekki síður öryggi þjónustunnar. Þetta leggja allir áherslu á, líka á Norðurlöndunum.

Starfshópurinn miðar í tillögum sínum við að leigubifreiðaakstur verði áfram háður leyfi og að ríkar kröfur í þágu öryggis séu gerðar til þeirra sem hann stunda. Starfshópurinn telur í áfangaskýrslu margt í athugunum sínum, m.a. á regluverki um leigubifreiðar í nágrannalöndum okkar og samræmi íslensks réttar við EES-samninginn, benda til þess að falla verði frá lögbundinni stöðvaskyldu í þeirri mynd sem hún er í í dag en að einnig sé hægt að leita annarra leiða til breytingar í þá átt að leiði ekki til lakari þjónustu við neytendur og að almennar kröfur muni tryggja gæði og öryggi leigubifreiðaþjónustu.

Starfshópurinn skoðar nú þetta atriði sérstaklega og mun útfæra frekari tillögur í lokaskýrslu.

Einnig spurði hv. þingmaður um Uber og Lyft. Svarið við því er í raun og veru að ekkert er því til fyrirstöðu að farveitur bjóði þjónustu sína hér á landi. Hins vegar er rétt að gera ráð fyrir að þær, sem og þeir sem þar bjóða þjónustu sína, uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru og gerðar verða til leigubifreiðastarfsemi. Einungis þannig verður hægt að tryggja öryggi neytenda og jafnræði í samkeppni á markaðnum. Það er líka rétt að benda á að Evrópudómstóllinn hefur nýlega dæmt að þessi fyrirtæki falli undir flutningafyrirtæki. Þau eru því ekki lengur í þessu deilihagkerfi hvað varðar Evrópu heldur falla undir nákvæmlega sömu kröfur og önnur fyrirtæki sem flytja vörur og í þessu tilviki farþega.

Þá hefur kannski síðustu spurningunni verið svarað. Við hyggjumst leggja fram breytingar. Afraksturinn af þessari skoðun á núverandi fyrirkomulagi verður að breytingar eru óhjákvæmilegar. Hins vegar þarf að gæta þess að þær verði gerðar í góðu samráði við stétt leigubifreiðastjóra (Forseti hringir.) sem eru aðilar að starfshópnum en einnig, og kannski fyrst og fremst, með hagsmuni neytenda í huga til að tryggja að breytingarnar breyti í engu og tryggi jafnvel enn frekar öryggi og hag neytenda, gæði þjónustunnar og framboð. Við tökum tillit til allra þessara sjónarmiða við þá vinnu sem á sér stað í augnablikinu í ráðuneytinu.