148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:14]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér innkomu frjáls farþegaaksturs fyrir gjald. Við vitum það jú öll að í þeim löndum þar sem þetta hefur verið leyft þá fellur það inn á fyrirtæki eins og Uber og Lyft. Þannig er það. Að mínu mati er ekki um neitt deilihagkerfi að ræða þegar svo er búið um hnútana og heldur ekki almenningssamgöngur, vegna þess að þetta eru fyrirtæki með undirverktökum og almenningssamgöngur eru raunverulega skipulagðar af samfélaginu í heild. Annað er að þessi fyrirtæki uppfylla ekki þær kröfur sem við höfum gert til leigubíla.

Það vakna ótal spurningar, ein er sú hvort við viljum fella út atvinnubílstjóra sem slíka, til fólksflutninga, í meginatriðum. Er það vilji okkar? Ég tel svo ekki vera. Dæmi er þá leigubílar eða t.d. litlar rútur, akstur með ferðamenn út á land. Við vitum hvernig það hefur stundum gengið hér á Íslandi þannig að mér finnst það óásættanlegt. Viljum við ekki tryggja fagmennsku og aðkomu fagfélaga í þessari grein, tryggja öryggi farþega eins vel og unnt er? Jú, það tel ég vera. Og viljum við stýra tryggingaskilmálum frammi fyrir farþegum? Við vitum hvernig þeim er háttað hjá Uber og Lyft. Þetta er þá skilgreind atvinnugrein sem við erum að tala um.

Ég held að við ættum að skoða þetta með raunveruleikagleraugum og hlusta á gagnrýni á þessi fyrirtæki erlendis, í Bandaríkjunum, í Danmörku, Bretlandi, Frakklandi, Egyptalandi meira að segja, ég hef flett þessu upp. Í Tékklandi var Uber og Lyft úthýst úr Brno og það er reynt að gera það í borginni Prag. Ég er hins vegar sammála hv. flutningsmanni þingsályktunartillögunnar um að það þurfi að bæta umhverfi leigubílaþjónustu og í það þurfum við að eyða tíma og ég ætla að ræða það í seinni ræðu minni.