148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þegar fram í sækir, við erum að tala um einn eða tvo áratugi, verða ekki lengur leigubílstjórar. Þetta starf verður ekki lengur til, ekki frekar en mörg önnur störf sem sjálfvirknivæðingin, í þessu tilfelli róbótar, tekur yfir. Þegar við erum komin með sjálfkeyrandi bíla erum við í rauninni bara með róbót. Við vitum það, til er skýrsla um það, tímaritið The Economist er búið að fjalla ítrekað um þetta mál og margar rannsóknir, m.a. frá Oxford 2013, sýna þetta. Ef við förum yfir skýrsluna lítur út fyrir að helmingurinn af störfum eins og við þekkjum þau í dag verði farinn á 20 árum.

Það eru því ekki bara leigubílstjórar sem standa frammi fyrir þessu, þetta er framtíðarstaðan hvað það varðar.

Þegar kemur að því að nýta tæknina sem er til staðar núna, Uber og fleiri, þannig að fólk, t.d. námsfólk sem vill geta farið út og keyrt í einhverja klukkutíma þegar því hentar, eða, eins og framsögumaður þessarar umræðu nefndi, t.d. öryrkjar sem geta unnið eitthvað, geta stokkið til og unnið þegar þeim líður vel til dæmis — þegar það fólk fer að nýta tæknina sem býður upp á þetta þurfum við á sama tíma að horfa til þess, eins og aðrir hafa komið inn á, að þeir sem eru nú þegar með réttmætar væntingar til þess að sinna þessum störfum — að það sé gert á þann hátt að lendingin verði ekki of harkaleg. Það er þannig með öll þau störf sem eru að hverfa, að við verðum að bregðast við núna svo lendingin verði ekki of harkaleg.

Það kemur þá inn á menntun o.s.frv. þannig að ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Ég fagna því að fyrrverandi og núverandi samgönguráðherrar séu að skoða þessi mál af því að við verðum að skoða þetta núna og lenda því farsællega. Ég get sagt ykkur að það er bara mjög stutt síðan verið var að ræða um farþegaflutninga í atvinnuskyni, það var rætt í nefnd fyrir þremur árum. Ég spurði fólk í ráðuneytinu hvort það væri ekki búið að skoða Uber o.s.frv. Það sagði: Jú, við vitum að það er að koma, (Forseti hringir.) við byrjuðum bara að vinna þetta frumvarp fyrir svo mörgum árum og þá vissum við ekki að þetta gerðist svo rosalega hægt hjá okkur. Þannig að það er eins gott að byrja fljótt.