148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:25]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson, fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Þetta er um margt slungið mál eins og hefur komið fram í umræðunni fram að þessu og fjölmörg rök sem má tína til bæði með og á móti. Það er náttúrlega augljós kostur fyrir farþega að geta pantað bíl á einfaldan hátt í gegnum smáforrit í farsíma og geta þar bæði greitt fyrir ferðina og fylgst nákvæmlega með ferðum bílsins þar sem hann er á leiðinni að sækja viðkomandi. Þannig er líka augljós kostur fyrir bílstjórann að þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því að greiðsla skili sér þar sem búið er að greiða fyrir ferðina fyrir fram. Þá er sömuleiðis ákveðinn kostur við þessi rafrænu viðskipti að bæði bílstjóri og farþegi geta gefið hvor öðrum einkunn, bæði góða og lélega eftir því sem við á, og þannig geta farþegar gætt sín á slæmum bílstjórum og bílstjórar sömuleiðis varast óþolandi farþega.

Eitt af því sem mig langar að nefna, fyrst verið er að endurskoða löggjöf um leigubifreiðar, er hvort það eigi að gera kröfur um bifreiðarnar sjálfar, þær uppfylli t.d. kröfur um ákveðna umhverfisþætti eins og útblástur. Ég nefni þetta hafandi orðið vitni að því nokkrum sinnum á flugvellinum í Reykjavík þar sem leigubílarnir standa í röðum og yfirleitt allir í gangi og oft er mengunarský yfir þeim sem er ekkert sérstaklega skemmtilegt.

Herra forseti. Ég er fylgjandi samkeppni á öllum sviðum enda eykur samkeppni verðmætasköpun, sem er svo hægt að nýta í bætta velferð. Ég held að það væri því áhugavert að skoða kosti þess að opna leigubílamarkaðinn meira en gert er í dag. Þó þurfum við náttúrlega að gæta þess í þessu máli sem öðrum að ekki komi upp félagsleg undirboð og sömuleiðis að tryggja ákveðið utanumhald, svo sem að allir bílstjórar hafi tilskilin leyfi, að allt sé uppi á borðum hvað varðar skattamál o.s.frv., en reynslan erlendis, til að mynda í Danmörku, hefur því miður sýnt að nokkuð hefur vantað þar upp á.