148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:33]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við heyrum hérna ósköp vel þekkt hugtök, markaður og samkeppni, jafnvel heilbrigð samkeppni, hvað sem það nú er, og frelsi. Við erum að ræða um fólksflutninga, við erum ekki að ræða um sölu á sælgæti eða eitthvað annað. Ég held að þegar við berum það saman við raunveruleikann þá sé þetta mál miklu flóknara en svo að þessi þingsályktunartillaga eigi hér erindi miðað við þá vinnu sem er verið að framkvæma, athuganir og annað slíkt.

Af því að hér er rætt um frelsi vil ég minna á að það er fylgst með farþegum hjá Uber og Lyft og það er vitað um allar ferðir fólks sem fer með þessum bílum. Það er ekki hægt að greiða með peningum. Menn þurfa jafnvel að verða sér úti um app, jafnvel borga fyrir það, þannig að það er ákveðin mismunun fyrir hendi og við erum að tala um fólksflutninga næstu tíu árin, ekki fjarlæga framtíð þegar engir peningar verða og sjálfkeyrandi bílar og eitthvað slíkt. Þetta er nær okkur í tíma en við höldum.

Ég held að það sé hægt í sjálfu sér að koma til móts við ýmsa skavanka sem eru á leigubílakerfinu og eru vissulega fyrir hendi. Það er hægt að fjölga leigubílum með því að bæði einfalda leyfi og fjölga þeim. Það verða hins vegar að vera leyfi fyrir þessum akstri. Það er hægt að lækka verð, t.d. með því að hafa ólíkar stærðir bíla eins og þekkist í sumum borgum, t.d. þrjár stærðir. Það er hægt að stuðla að samkeppni milli þeirra fyrirtækja sem verða þá á markaði þótt þau heiti ekki Uber eða Lyft. Ég styð þær athuganir sem verið er að vinna á vegum hæstv. samgönguráðherra og lít vonaraugum til þeirra. Þetta er ekki gallalaust kerfi heldur þarf að skoða það vandlega en ég geld varhuga við því að sú opnun sem hér er boðuð muni leysa þau vandamál sem leigubílaakstur eða fólksflutningar einkennast af hér á Íslandi.