148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

frelsi á leigubílamarkaði.

[16:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka verulega áhugaverða umræðu um þetta mál. Ég ákvað frekar að taka saman nokkra punkta sem vöktu athygli mína og skjóta á þá. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að setja okkur inn í þá vinnu sem er í gangi og hvers má vænta og síðan einstökum þingmönnum fyrir að setja fram mismunandi sjónarmið.

Vegna hræðslu í tengslum við aukningu á svartri atvinnustarfsemi yrðu þessar breytingar að veruleika vil ég segja að svört atvinnustarfsemi blómstrar í núverandi markaðsumhverfi. Þessar breytingar eru, a.m.k. að mínu mati, þvert á móti til þess fallnar að draga úr henni þar sem áhugasamir ættu fleiri kosta völ. Ég sé á engan hátt af hverju aukið frelsi innan almenns lagaramma um sjálfstæðan rekstur ætti að ýta undir slíka svarta starfsemi.

Annað mikilvægt er öryggismálin. Það er á engan hátt verið að leggja til að gefa neinn afslátt þar. Staðreyndin er bara því miður sú að núverandi lög hafa ekki komið í veg fyrir dæmi um slík brot. Allt tal um að öryggisleysi myndi aukast í kjölfar svona breytinga er að mínu mati til þess fallið að afvegaleiða umræðuna.

Svo er það umræðan um framboð og offramboð sem mér finnst að miklu leyti snúast um skemmtistaðamenninguna okkar, biðraðir niðri í miðbæ um hánótt. Það er gott og vel, en áhugi minn á frelsi á þessum markaði snýr fyrst og fremst að því að leigubílar í mismunandi mynd verði í ríkari mæli hluti af lausninni á þeim vanda sem almenningssamgöngurnar okkar búa við. Það þarf fjölbreyttara framboð og fjölbreyttara verð til að svo verði.

Svo finnst mér líka að við eigum að fagna því tækifæri sem hér fæst með því að nýta möguleika deilihagkerfisins og fjölga störfum. Við horfum í ríkari mæli upp á þá áskorun að vernda störf sem geta glatast með tækniframförum. Hér bjóða tækniframfarir okkur upp á að breyta markaðnum og fjölga þeim sem geta lagt sitt af mörkum.

Aðeins að lokum um starfshópinn og skoðanir einstakra þingmanna, jafnvel (Forseti hringir.) föðurlegar ábendingar um að ekki þurfi umræðu í þingsal af því að það er einhver starfshópur ráðherra að skoða málið. Ég verð að fá að lýsa mig fullkomlega ósammála og ég trúi ekki að ég sé ein um að þekkja til þess að góð mál séu svæfð í starfshópum. Þau geta jafnvel verið fleiri en mál sem sofna í fastanefndum þingsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Hagsmunaaðilar, og ég ætla bara að beina því til hæstv. ráðherra, eru ekki bara þeir sem veita þjónustuna og hafa þar af leiðandi mögulega tilhneigingu til að viðhalda núverandi kerfi. Langstærsti hagsmunaaðilinn er sá sem notar þjónustuna, þ.e. almenningur, og (Forseti hringir.) ég vildi óska þess að hann fengi aðgang að þessari vinnu starfshópsins.