148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Meðal margra verkefna Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands er þjónusta við stjórnvöld, m.a. að veita ráðgjöf og umsagnir vegna lagasetningar. Starf stofnunarinnar er okkur ekki síst mikilvægt þegar á þinginu eru rædd málefni á borð við dánaraðstoð, umskurð drengja, meðferð greiðslna til þingmanna, staðgöngumæðrun, mistök í vísindarannsóknum og líffæragjöf. Einnig koma til kasta stofnunarinnar málefni sem við þingmenn fjöllum gjarnan um á sviði umhverfismála og viðskipta, móttaka flóttamanna, notkun á ýmissi nýrri tækni og persónuverndarmál.

Samkvæmt reglum Siðfræðistofnunar tekur hún m.a. við framlögum úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum. En í fjárlögum er ekkert að finna um slík framlög og stofnunin þarf því að reiða sig að öllu leyti á Hugvísindastofnun Háskóla Íslands og svo framlög frá einkaaðilum. Ég held að við getum flest verið sammála um að það er varasamt að jafn mikilvæg stofnun og Siðfræðistofnun er okkar samfélagi opni þannig fyrir mögulega hagsmunaárekstra með því að reiða sig um of á framlög utanaðkomandi aðila.

Við þurfum kannski svo sem ekkert að hafa áhyggjur af því heldur frekar þeirri staðreynd að slík framlög eru ekki fyrir hendi heldur þannig að nú stendur Siðfræðistofnun frammi fyrir varanlegum rekstrarvanda. Það er svo í pottinn búið að hún hefur ekki bolmagn til að halda úti launuðum starfsmanni.

Ég kalla einfaldlega eftir viðbrögðum stjórnarflokkanna við þessari stöðu og nefni sérstaklega að víða um lönd, m.a. á Norðurlöndum, eru starfandi siðaráð sem eru stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á þessu sviði til að undirbúa vandaða lagasetningu og aðstoða við umræður af því tagi sem ég hef talið hér upp. Ég spyr: Hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi faglega umræðu um siðfræðileg álitamál? Eða kannski frekar: Er slík framtíðarsýn yfir höfuð til?