148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að það var mjög sérstakt að hlusta á ræðu hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan. Ég hélt í augnablik að ég væri kominn aftur í Icesave-umræðuna þar sem menn stóðu og vöruðu við því að farið væri gegn alþjóðavaldinu eða gegn stórum ríkjum o.s.frv. Hv. þm. Óli Björn Kárason stóð og flutti nákvæmlega sömu ræðuna og hefði verið hægt að flytja í Icesave-umræðunni allri saman.

Við erum að ræða almannahagsmuni. Það er staðreynd að inni í Arion banka er eitt stykki sem heitir Valitor sem er 60–70 milljarða virði. Eigið fé bankans er um 180 milljarðar. Nei, ríkisstjórnin ber sér á brjóst fyrir að hafa selt og fengið einhverja 23 milljarða, einhverja litla vexti á vonlausan samning sem var gerður 2009 af vinstri stjórninni, þáverandi stjórn. Af þessu stæra menn sig. Þetta er með ólíkindum.

Svo stendur hv. þm. Óli Björn Kárason hér og talar um samninga. En var það ekki þannig að hinn aðilinn stóð ekki við sinn hluta samningsins? Hann hafði ekki lausafé árið 2009, svo dæmi sé tekið, til að uppfylla samninginn. Eiga ekki báðir aðilar að uppfylla samninga? Hvernig er það? Svo koma menn og segja að við höfum þurft að uppfylla þessa samninga?

Dönsk stjórnvöld, norsk, bresk, bandarísk, tóku hagsmuni þjóðarinnar umfram hagsmuni vogunarsjóðanna og leystu til sín þá banka sem þurfti að leysa til sín. Fóru í þá vegferð að endurskipuleggja sitt kerfi. En hvað gerum við núna? Mig grunar að þetta sé þannig, kæru þingmenn, að þetta hafi verið ískalt hagsmunamat Sjálfstæðisflokksins, að hanga núna í vinstri ólinni, vinstra megin. Láta teyma sig hér um gangana eins og þeir hafa gert í þessari ríkisstjórn, leggjast flatir, láta klóra sér á belgnum. Af hverjum? Jú, þeim sem framkvæmdu samningana og skrifuðu þá og bjuggu til 2009.

Þetta er sorglegt að horfa upp á. Hvar eru hagsmunir þjóðarinnar í þessu, kæru Sjálfstæðismenn? Hvernig væri að hugsa um þá? Nei, menn leggjast flatir fyrir vogunarsjóðunum. Ég bara minni á að öll gögn, ekki bara þau sem hægt er að nálgast, (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Óli Björn Kárason sagði, öll gögn um þetta mál verða að koma upp á borðið og það strax. Það verður að kafa ofan í hvar menn eru virkilega (Forseti hringir.) að klúðra málum og hvort þeir hafi vitað betur.