148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:09]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir orð hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur um það sem blasir við okkur sem hér sitjum, þ.e. algert verkleysi ríkisstjórnarinnar. Ég man þá tíð, fyrir nokkrum vikum, það fer að halla í mánuði, að við vorum hvött til þess, stjórnarandstöðuþingmenn, að sýna nú á okkur sparihliðina og taka undir og vinna með ríkisstjórninni í öllum þeim fjölda góðra mála sem þar átti að leggja fram. Við bíðum enn.

Mig langar líka að nefna, ef það skyldi hjálpa, að í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær sátu hér hvorki fleiri né færri en sex hæstv. ráðherrar sem ætluðu að taka til máls, reiðubúnir í þennan hálftíma sem okkur er boðinn. Og ég er viss um að það eru fleiri þingmenn en ég sem myndu segja: Splæsið á okkur þremur, fjórum, ef það myndi hjálpa til við verkin. Hinir hefðu þó þann hálftíma í ráðuneytunum til að koma einhverjum verkum á framfæri.