148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir með flestum þeim sem hér hafa talað varðandi það að hvetja ríkisstjórnina til dáða, til að koma með mál inn á borð til okkar alþingismanna svo að við getum farið að sinna vinnu okkar af fullum krafti. Ég bíð af sama spenningi og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað eftir að þau góðu mál sem ég veit að von er á berist hingað. Ég hlakka til að takast á við þau. Það eru kannski jákvæð hliðaráhrif af þessu að við höfum haft nægan tíma til að ræða þingmannamál núna. En ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa talað: Nú þarf ríkisstjórnin að fara að spýta í lófana og koma með mál til okkar.

Ég er ekki viss um að ég sé sammála hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um að takmarka eigi þann fjölda ráðherra sem sitja fyrir svörum hér. Ég þekki það, hafandi setið hinum megin, að það er gott að geta spurt ráðherra að hverju sem manni dettur í hug. En ég vil taka undir brýningu til hæstv. ríkisstjórnar um að koma með mál inn á borð til Alþingis.