148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:21]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að það sé nú rétt að ríkisstjórnin fari að haska sér. Á málaskrá ríkisstjórnarinnar eru um 140 mál, ef ég man rétt, en ég hugsa að þau séu innan við 15 sem eru komin fram hér í þinginu. Þannig að það er talsverður hali. Ég held að það sé rétt að ríkisstjórnin fari nú að stokka upp spilin og láta okkur vita hvaða nokkrir tugir af þessum 140 það eru sem þau ætla raunverulega að leggja fram og hvað er til skrauts.

Ég treysti því þar sem það er svona rúmur tími núna fyrir þingmannamál að það verði ekki þannig að þau komist bara til nefndar og umsagnar og einhverrar umræðu í nefndum heldur fái þau áframhaldandi forgang á meðan hægt er og verði tekin til afgreiðslu í þinginu. Þótt mikilvægt sé að heimsækja stofnanir og fræðast um verkefni þeirra held ég að tíminn núna sé betur nýttur til þess að koma þingmannamálum í gegnum þingið en láta þau ekki öll sofna í nefndum, sem mun væntanlega gerast ef ég þekki vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar rétt.