148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[14:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifærið og taka undir orð kollega míns hér varðandi meðferð þingmannamála. Ég held að ekki sé ofsögum sagt að þingmenn hér, flestir úr stjórnarandstöðu, einhverjir þó úr stjórnarflokkunum, svo því sé til haga haldið, haldi uppi störfum þingsins þessa dagana. Ég bendi á að það eru fimm mál á dagskrá þingsins í dag. Mér sýnist á öllu að hægt væri að klára mikið fleiri mál og án þess að fara langt inn í kvöldið. En líklegast er ástæðan fyrir því að það er ekki gert sú að það yrði bara fundarfall á morgun eða næstu daga.

Ég biðla til þess, hvet til þess og vænti þess að þau mál sem nú eru til umræðu í þinginu, sem þingmenn ræða og halda þannig uppi störfum þingsins, séu afgreidd alla leið, að það sé hluti af hinum nýju vinnubrögðum sem svo mikið hafa verið auglýst en lítið ástunduð.