148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Frumvarp til nýrra persónuverndarlaga er svo gott sem tilbúið. Ég hef lagt á það áherslu við vinnslu á því að víðtækt samráð sé haft við atvinnulífið, við tækniheiminn ef ég má orða það þannig, með víðtækum hætti og á fyrri stigum, ekki bara þetta hefðbundna samráð sem við í Stjórnarráðinu höfum þegar frumvarp liggur fyrir og svo kemur auðvitað til enn meira samráð af hálfu þingsins við aðila utan þings. Þannig að frumvarpið hefur verið í þessu samráðsferli og er svo gott sem er tilbúið. Það verður ekki lagt fyrir þingið fyrr en búið er að innleiða frumvarpið inn í EES-réttinn. Það gæti auðvitað gerst á næstu vikum, en það gæti líka dregist. Boltinn er hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það gæti auðvitað líka dregist fram á sumar. Við erum alveg meðvituð um það.

Þá vek ég athygli á því að það segja mér fróðir menn um persónuvernd í Evrópusambandinu og reglugerðina sem tekur þar gildi 25. maí, að það er öllum til efs að öll ríki Evrópusambandsins séu tilbúin og í raun jafn tilbúin kannski og íslensk fyrirtæki og íslenskar stofnanir eru til þess að innleiða þessa persónuverndarreglugerð. Þá kemur upp þetta hefðbundna spursmál eða vangaveltur um innleiðingarferlið á Íslandi. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er að Ísland er að fara að innleiða þessa persónuverndarreglugerð. Frumvarpið er tilbúið og ferlinu verður hraðað sem unnt er í sameiginlegu EES-nefndinni. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því jafnvel þótt til þess kæmi að það myndi dragast að Alþingi samþykkti ný lög um persónuvernd.