148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:36]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem aðallega til þess að reyna að árétta ákveðinn misskilning. Það virðist sem hæstv. dómsmálaráðherra haldi að það sé eitthvert markmið Pírata að reyna að koma ráðherranum í vanda. Mér þykir það fullmikil viðkvæmni, sér í lagi þar sem það var hv. þm. Andrés Ingi Jónsson en ekki neinn af þingmönnum Pírata sem las upp lista með mörgum mistökum hér áðan. Þannig að ég vil að það sé alveg skýrt.

Við erum ekki í neinni sérstakri vegferð við að reyna að koma ráðherra í vanda, enda hefur það reynst ráðherra auðvelt í gegnum tíðina að koma sjálfum sér í vanda einstaka sinnum. En þótt vissulega séu ekki nema fá þessara frumvarpa, sem lögð voru fram með göllum, frá núverandi hæstv. dómsmálaráðherra er vissulega gott að sjá viðleitni hennar til að reyna að laga þau.

En það er mikilvægt að nefna að það er á ábyrgð ráðherra að leggja fram ógölluð frumvörp. Ég þykist vita að hæstv. dómsmálaráðherra viti það. Það er ekki endalaust hægt að varpa því yfir á þingið að það skuli vera hlutverk þingsins að grípa öll mistök sem kunna að eiga sér stað, sérstaklega ekki þegar ekki er farið eftir því sem Alþingi sjálft hefur ályktað um, að frumvörpin eigi að koma fram á ákveðnu formi, m.a. með umræddum samanburðarskjölum, að það skuli ekki vera sértilfelli heldur eigi það að vera almenna reglan, samkvæmt ályktun þingsins sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson ræddi hér áðan í töluvert löngu máli.

Svo ég taki þetta saman þá erum við ekki að reyna að valda neinum skaða, en við þurfum að skilja að ábyrgð á svona málum liggur ansi víða.