148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:38]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í framhaldi af umræðum um mistök eða ekki mistök þá árétta ég að það eru engin frumvörp af minni hálfu sem hafa verið leiðrétt á þessu þingi eða á því síðasta, heldur hefur verið um að ræða frumvörp frá mér um leiðréttingar á frumvörpum sem aðrir ráðherrar hafa lagt fram.

En ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að greiða þurfi fyrir störfum allra sem að lagasetningunni koma og sérstaklega hv. þingmönnum þótt þeir séu í fullum færum til að óska eftir aðstoð við sameiningu eða endurskoðun á frumvörpum sem koma í þingið. Mér hefur sýnst margir nýta sér það alveg ágætlega.

Ég áttaði mig ekki á því þegar hv. þingmaður vísaði til ályktunar Alþingis um framsetningu á skjölum sem þinginu berast. Ég þekki það ekki, en þingið getur auðvitað sett sér reglur um á hvaða formi lagafrumvörp koma frá ráðuneytunum. Ég veit ekki betur en að öll ráðuneytin hlíti óskum þingsins, hvort sem efnið er í formi einhverra reglna eða ályktana, ég þekki það ekki hvort reglur séu um það. Að sjálfsögðu hefur myndast einhver hefð fyrir framsetningu lagafrumvarpa. En það skiptir auðvitað miklu máli að það sé ákveðin formfesta í framsetningu lagafrumvarpa frá einum tíma til annars þótt slíkum lagafrumvörpum megi mjög gjarnan fylgja fylgiskjöl sem skýra vinnuskjöl til þess að auðvelda þingmönnum vinnuna. Ef það er það sem hv. þingmaður er meina þá tel ég það vera til velfarnaðar fyrir þingið.