148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Umrædd þingsályktun fjallar um tölvutækt snið skjala og hefur m.a. í för með sér, ef rétt var að verki staðið, að hægt sé að skila skjölunum m.a. á þessu samanburðarformi með engum aukaaðgerðum, að það sé bara sjálfsagður hluti af öllu. Þá er til önnur þingsályktunartillaga um auðkenningu breytingartillagna, sem hefur mér vitanlega ekki verið samþykkt en væri kannski ágætt að væri samþykkt einmitt til þess að svona lagað gangi vel fyrir sig.

Mér er ljúft og skylt að senda hæstv. dómsmálaráðherra eintak af umræddri þingsályktun þannig að hægt sé að tryggja að allt sé samkvæmt henni í dómsmálaráðuneytinu, enda væri það bara til bóta, held ég. Það er nauðsynlegt að góð samvinna sé milli þingsins og ráðuneyta og hefur verið fullur vilji til þess að koma í veg fyrir misskilning og mistök. Það er bara hið besta mál að við reynum að vinna að því markmiði.