148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður var skýrari í sínu seinna andsvari, þar kom fram að hann væri að vísa til þingsályktunartillögu … (Gripið fram í.) — Þingsályktunar og tillögu, er kallað hér utan úr sal. Sem sagt til tillagna sem liggja fyrir þinginu en ekki reglna þingsins sjálfs. Ég árétta það sem ég hef sagt í ræðu, að þinginu er auðvitað í sjálfsvald sett að setja sér reglur um framsetningu á vinnuskjölum og eins og reglur um vinnubrögð hér að öðru leyti. En ég hef áréttað að ég hef fullan hug á því að bregðast við óskum þingmanna, komi einhver sérstök ósk frá þinginu um framsetningu á skjölum, að því gefnu að það kalli ekki á gríðarlega umfangsmikla vinnu í ráðuneytinu eða sérfræðikunnáttu sem ekki er hægt að ætlast til að ráðuneytið búi yfir er lýtur að tæknilegri tölvuútfærslu skjala. En ég veit ekki betur en að skjöl komi rafrænt og þar fram eftir götunum, þannig að það á að vera auðvelt fyrir alla þingmenn að vinna með skjölin frá ráðuneytunum.

Eins og ég hef nefnt og árétta hér hafa starfsmenn þingsins verið afskaplega liðlegir í aðstoð við þingmenn. Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á að renna frekari stoðum undir störf þingsins og að starfsmönnum hafi verið fjölgað hér. Þingflokkar hafa fengið aukna aðstoð á þessu kjörtímabili, þeir hafa fengið heimildir fyrir fjölgun starfsmanna, þannig að þetta horfir allt til betri vegar á þinginu. En umfram allt held ég að allir þingmenn ættu að hafa í huga að magn er ekki sama og gæði þegar kemur að þingmálum. Þá vísa ég bæði til stjórnarfrumvarpa og þingmannafrumvarpa.