148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

áfengislög.

127. mál
[16:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er afar ánægður með eina setningu í greinargerðinni: „Áfengisneysla er rótgróinn hluti af íslenskri menningu.“ Ég hefði ekki getað samið betri setningu.

En þegar maður fer aðeins aftur í tímann, því að menn hafa verið að koma með frumvörp um aukið frjálsræði gagnvart áfengi, hafa meira að segja menn sem eru á þessu frumvarpi hér verið mjög tvístígandi um aukið frelsi gagnvart áfengi. Það má eiginlega skipta þeim hópi sem verið hefur á móti því í fjóra hópa: Það eru þeir sem aldrei hafa neytt vörunnar, þeir sem kunna ekki með hana að fara, þriðji hópurinn eru þeir sem eru að hjálpa þeim sem ekki kunna með hana að fara og sá fjórði eru stjórnmálamenn sem eru á tíðum ferðum erlendis og geta keypt allt í fríhöfninni. En þessi hópur er bara meiri hluti þjóðarinnar. Þess vegna hefur aldrei náðst neitt frelsi.

Ég spyr, af því að hér er verið að heimila fólki að brugga sjálft, hvort ekki sé þversögn í því að vera svona tregur eða á móti auknu frelsi með áfengi en leyfa síðan á sama tíma fólki að framleiða það. Þegar fólk má á annað borð framleiða áfengi, trúir því einhver að þá neyti það þess bara sjálft? Njóta ekki alltaf einhverjir aðrir góðs af? Faðir minn heitinn bruggaði í skúrnum. Allur bekkurinn minn í menntaskóla var í skúrnum. Er ekki eitthvað mótsagnakennt hvað þetta varðar?