148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni þessa frumvarps og framsögumanni, Helga Hrafni Gunnarssyni, fyrir þetta. Það er bara eitt mál sem mig langar að ræða meira við hv. þingmann sem tengist þessu frumvarpi, það er það sem kemur hér í lokin á greinargerðinni þar sem talað er um möguleg áhrif á kjarasamninga og fleira slíkt.

Í greinargerðinni er vísað í umsögn BSRB og ASÍ frá því málið var lagt fram á 145. löggjafarþingi ef ég man rétt. Í greinargerðina vantar þó síðustu setninguna í umsögn BSRB þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að því leytinu til er sérstaklega mikilvægt að tryggja að gangi frumvarpið eftir og verði að lögum muni það ekki hafa nein áhrif ákvæði kjarasamninga.“

Hv. þingmaður kom aðeins inn á þetta, í greinargerðinni er talað um umfjöllun allsherjar- og menntamálanefndar og mig langar að biðja hann að skýra það örlítið betur hvernig nákvæmlega þessum áhyggjum er mætt í frumvarpinu. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að þetta hafi ekki nein áhrif á réttindi fólks enda þykist ég vita það, og þykist ekkert, ég heyrði hv. þingmann segja það, að málið snýst á engan hátt um það sem lýtur að kjarasamningum. En hvernig tryggjum við það best? Nú eru kjarasamningar margir hverjir að verða lausir, nýbúið að gera aðra. Hvernig tryggjum við það að frumvarpið, verði það að lögum, muni engin áhrif hafa á kaup og kjör fólks?