148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:54]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála þeim vangaveltum sem hér er farið út í. Það er sérstakt að horfa til þessa samspils kjarasamninga og löggjafarinnar hvað þætti sem þessa varðar. Í mínum huga ætti það að vera alveg skýrt, ég tel reyndar að það sé alveg skýrt, að um ákveðið mannréttindamál er að ræða sem tekur ákvæðum kjarasamninga fram þrátt fyrir að við séum vissulega með það lagaumhverfi að við veitum kjarasamningum lagastoð sem samningum um lágmarksréttindi á vinnumarkaði.

Það breytir ekki afstöðu minni til þessa góða máls. Ég held að þetta sé löngu tímabær breyting, en mér þætti áhugavert að sá þáttur væri einnig skoðaður að veita einstaklingum aukið frelsi til að ráðstafa í það minnsta hluta þeirra lögbundnu frídaga sem þarna yrðu áfram við lýði í samræmi við eigin trúarbrögð.