148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil bara að það komi skýrt fram að þó að ég sé jákvæður fyrir þessu frumvarpi og held að ég geti stutt það þá felst ekki í því nein yfirlýsing í garð helgihalds kristinna manna, að það sé eitthvað verið að gera lítið úr því eða reyna að setja það skör lægra, síður en svo. Kristnir eiga auðvitað rétt á sínu helgihaldi eins og aðrir sem eru annarrar trúar og við eigum auðvitað að gæta þess og varðveita að menn hafi frið til þess og séu óáreittir í því, en ég sé ekki að þegar menn tilbiðja guð sinn í guðshúsi þá þurfi að meina öðru fólki að sinna því sem það vill sinna á þeim sama degi. Ég sé ekki hvaða truflun felst í því þó að ég spili þá eftir atvikum bingó, sem fáir spila held ég reyndar í dag, (Forseti hringir.) að það trufli helgihald hjá söfnuði í kirkju. Ég átta mig ekki á samhenginu.