148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Þar kom margt athyglisvert fram og reyndar einnig í þeim orðaskiptum sem hafa hér verið. Það sem ég er að reyna að átta mig á er að við erum að tala um menningararf, nefnir þingmaðurinn, og ég held að það sé alveg óhætt að segja að sé rétt. Sagan er eins og hún er. Ég held að við deilum í sjálfu sér ekkert um það. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að langstærstur hluti þjóðarinnar tilheyrir þjóðkirkjunni og telur sig þar með kristinnar trúar, reikna ég með.

Þegar svo er og talað er um menningararf, að okkur sé eitthvað í blóð borið og við þurfum að styðja það og varðveita, átta ég mig ekki alveg á af hverju þarf lög til að halda uppi arfi sem okkur er í blóð borinn. Af hverju þarf að viðhalda því nánast með valdi að þetta sé það sem okkur finnst? Ég skil það ekki alveg.

Svo finnst mér dálítill tvískinnungur í því að menn vilji varðveita helgidagafriðinn með þessum hætti, og segja: Við erum samt alveg tilbúin til að skoða það að slaka svolítið á hvað megi gera og svona, það sé alveg sjálfsagt, því að menn eiga rétt til hvíldar, er það ekki? Það er eitt af þessu. En sumir þurfa þá ekki að hvíla sig á þessum umræddu dögum því að þeir þurfa að þjóna túristunum eða þörfum okkar hinna. Þannig að ég skil þetta ekki; er þetta ekki svolítið annaðhvort eða? Annaðhvort eigum við öll að hvíla okkur af því að þetta er helgidagur sem taka á alvarlega, eða við gerum það ekki.

Síðan spyr maður sig: Hvaðan kemur öll þessi ógn sem raskar friðinum? (Forseti hringir.) Kemur hún þá ekki frá hinum kristnu sjálfum sem búa í þessu landi undir þessum reglum, sem vilja spila bingó og gera hvað sem er? Það er kristið fólk að meginuppistöðu til, held ég.