148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Þetta er um margt skemmtilegt og áhugavert mál til þess að ræða hér. Í mínum huga held ég að sé svolítið mikilvægt að átta sig á því um hvað er verið að ræða, að hverju er vegið ef svo mætti orða, og að hverju ekki. Mér finnst þetta með einföldum hætti vera spurning um ríka tilburði okkar til forræðishyggju á móti frelsi. Horfum til þess um hvað málið snýst. Málið snýst í raun og veru um frelsi til þess að gera það sem okkur lystir á þessum helgu frídögum kristinnar trúar, hvort sem það er atvinnurekandi eða einhver sem rekur skemmtistað, veitingastað eða hvað annað, til að halda starfsemi sinni opinni, eða okkur hinna að sækja þá skemmtan eða afþreyingu sem við kjósum okkur.

Við erum oft á tíðum með ansi ríka tilhneigingu til forræðishyggju í svona málum. Við erum hins vegar líka oft mjög skemmtilega praktísk þegar kemur að svona málum. Við vorum býsna praktísk þegar við tókum upp kristna trú yfir höfuð. Það var ekki mikill trúarhiti í landsmönnum sem varð þess valdandi að við ákváðum nánast á einum eftirmiðdegi að skipta um trú, það hafði frekar með praktíska lausn á gíslatöku í Noregi að gera. Þarna þóttust menn hafa fundið ágæta lausn á því vandamáli og kristin trú varð ofan á.

Þegar við tókum upp áfengisbann á sínum tíma fundum við líka á því ýmsar praktískar undanþágur af því við þurftum að tryggja utanríkisviðskipti við Spán og leyfðum þess vegna rauðvín fyrr en annað áfengi. Þannig kvarnaðist úr þessum boðum og bönnum hægt og rólega.

Það sama má raunar segja um þetta. Það er auðvitað ljóst að nú þegar gilda mjög víðtækar undanþágur á þessum helgidagafrið. Upptalningin er:

Gististarfsemi og tengd þjónusta, starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleigna, svo og starfsemi matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum — það er auðvitað hættulegt að vera með stærri verslanir opnar — íþrótta- og útivistarstarfsemi, listsýningar, tónleikar, leiksýningar og kvikmyndasýningar eða sams konar sýningar. Einnig má halda og veita aðgang að sýningum er varða vísindi eða er ætlað að gegna almennu upplýsingahlutverki, svo og að hafa opin listasöfn og bókasöfn.

Hér virðist fátt standa eftir annað en dansleikir sem eru bannaðir á þessum dögum. Ég velti fyrir mér af hverju við höfum svona miklar áhyggjur af því hvort fólk, hvort sem er kristinnar trúar eða annarrar trúar, kjósi að dansa á þessum dögum frekar en einhverjum öðrum dögum.

Við erum ekki að vega að frelsi fólks til þess að iðka trú sína. Við verjum trúfrelsið ágætlega í stjórnarskrá nú þegar. Og hér er áfram lagt til að þessir frídagar séu í sjálfu sér varðir áfram sem frídagar þjóðarinnar og raunar langt umfram það sem margar aðrar kristnar þjóðir horfa til í trúarlegum frídögum. Það hefur þegar komið fram í þessari umræðu.

Ég man ég skoðaði þetta einhvern tímann í tengslum við fyrri störf mín. Ég held að við og Spánverjar séum í efsta sæti yfir trúarlega frídaga sem eru lögbundnir eða umsamdir í kjarasamningum. Hér er í sjálfu sér ekki verið að vega að eða þrengja með neinum hætti frelsi kristinna manna til að iðka trú sína eða vega að helgihaldinu með neinum hætti í mínum huga. Það er fyrst og fremst verið að tryggja frelsi til að stunda hverja þá starfsemi sem menn kjósa að stunda á þessum dögum líkt og á öðrum dögum ársins.

Við verjum líka réttindi fólks þegar kemur að frítöku og frídögum, bæði í lögum og kjarasamningum, þegar kemur að því að vinna á þessum dögum. Það má auðvitað hafa það í huga að ansi myndarleg starfsemi er starfrækt á þessum helgidögum í dag eins og upptalning mín úr lögunum ber vitni um. Með vaxandi fjölda ferðamanna til landsins er umfang gistihúsastarfsemi og veitingahúsastarfsemi miklum mun meira nú en nokkru sinni fyrr.

Þess vegna held ég að það sé löngu tímabært að við afnemum þetta, tryggjum, eins og hér er lagt til, þessa frídaga áfram í lögum um 40 stunda vinnuviku, líkt og flutningsmenn leggja upp með. En að því sögðu sé ég ekkert því til fyrirstöðu að afnema þessi lög. Ég sé fátt standa eftir í raun og veru. Það má vissulega takast á um það nokkur ár enn hvort undanþiggja eigi fleiri þætti í því banni sem í lögunum er að finna. Við getum sjálfsagt eytt einhverjum árum í að bæta á þann lista. Ég held að það sé orðið miklu einfaldara, miðað við umfangið á undanþágunum nú þegar, að afnema lögin og leyfa fólki bara að ráða þessu sjálft.

Ég hygg að þetta sé alveg örugglega ekki í síðasta sinn á þessu þingi sem við tökumst á um atriði sem snúa að frelsi eða forræðishyggju. Ég óttast að það sé gjarnan mjög ríkur vilji til hins síðarnefnda. Mér þætti vænt um að frelsið fengi hins vegar oftar að ráða för. Mér finnst þetta ágætismál til merkis um að tímabært sé orðið að breyta hér gömlum hefðum og venjum sem engin ástæða stendur til. Það er ágætt að hafa það í huga.

Vissulega er það rétt að þorri þjóðarinnar er enn kristinnar trúar, alla vega yfirlýstrar. Sjálfur er ég alinn upp í kristinni trú, er í hópi þeirra sem eru í þjóðkirkjunni, í það minnsta enn skráðir þar, kvæntur í kirkju, skírði börnin mín í kirkju o.s.frv., en verð vissulega að viðurkenna að að öðru leyti er ég ekki mjög trúrækinn maður. En það angrar mig ekki nokkurn skapaðan hlut að annað fólk megi skemmta sér á föstudaginn langa. Ég minnist þess sem drengur að hafa alist upp við fortakslaust bann við nokkru skemmtilegu á þeim degi og þurfa svo að horfa á enn eina útgáfuna af krossfestingu í sjónvarpi að kvöldi. Þetta er blessunarlega breytt. En það dregur ekki úr réttindum fólks til að taka þessa daga eins hátíðlega og það sjálft kýs. Ég tel hins vegar fullkomlega eðlilegt að við stígum þetta skref til fulls og segjum þá: Það á heldur ekki að leggja blátt bann við atvinnustarfsemi á þessum dögum eða að fólk skemmti sér með þeim hætti sem það sjálft kýs eða stundi hverja þá afþreyingu sem það kýs að taka sér fyrir hendur á þessum dögum. Það er löngu tímabært að breyta þessu.