148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:24]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn segir í fyrra andsvari að hann sé opinn fyrir því að breyta lögum um helgidagafrið. Þetta snýr sér í lagi að atvinnuréttindunum, finnst honum, þó að honum hafi verið bent á að öll réttindi til friðar, til frístunda, myndu færast yfir í lög um 40 stunda vinnuviku þannig að þau væru enn til staðar. Þingmaðurinn nefnir að þótt umrædd ákvæði séu í helgidagalögunum virki þau ekki. Hvers vegna færum við þau þá ekki yfir og látum þau virka og gerum hlutina betur? Það væri ein leið. Hv. þingmaður gæti komið með breytingartillögu við frumvarpið sem myndi tryggja enn betur að þessi ákvæðu væru að virka, það er eitt.

Mér heyrist að þingmaðurinn hafi ekki áhuga á því að styðja frumvarpið. Sjáum til hvort hann er tilbúinn til að gera breytingartillögu við það til að tryggja þetta atriði varðandi vinnandi fólk og frídaga þess. Það snýst um vinnandi fólk að þessir helgidagar séu til staðar, þannig að fólk geti fengið sitt frí, en er kannski ekki að virka sem skyldi. Hvernig gætum við þá breytt lögum um helgidagafrið til þess að þau væru að virka varðandi verkafólk eða vinnandi fólk? Fyrst þingmanninum finnst, eins og hann talar í ræðu sinni, þetta aðallega snúast um þá hagsmuni getum við þá ekki fjarlægt bann við ákveðnum athöfnum á þeim helgidögum sem talað er um í 4. gr. laganna eins og þau eru í dag? Það er talað um að á helgidögum þjóðkirkjunnar gildi ákveðnar reglur: Það er bann við óheimilum skemmtunum og dansleikjum, bingó og ýmsu slíku.

Ef það er raunverulegur vilji þingmannsins að vernda vinnandi fólk myndum við þá geta fjarlægt þetta út? Eða vill hann halda þessu inni, eða bara fara í samtal um hvað við gætum mögulega gert með það? Getum við ekki bara fjarlægt það algjörlega? Ég spyr til að við fáum það algjörlega og heiðarlega á hreint hvar þingmaðurinn stendur hvað þetta varðar.