148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[18:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þessa tillögu. Þetta er tillaga sem ég kannast nú örlítið við. Það sem ég er aðeins hugsi yfir er kannski ekki innihald tillögunnar sem slíkrar heldur það sem stendur í stjórnarsáttmálanum og svo í þessari tillögu.

Í stjórnarsáttmálanum, í kafla um húsnæðismál, segir m.a. með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum …“

Einnig:

„Ríkisstjórnin vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.“

Þarna eru tvö atriði nefnd í stjórnarsáttmálanum sem tengjast þessu vissulega.

Síðan segir, í þessum sama kafla, með leyfi forseta:

„Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.“

Ég spyr hv. þingmann: Er þessi þingsályktunartillaga til þess að losa ríkisstjórnina undan þeirri vinnu sem er í stjórnarsáttmálanum? Megum við þá ekki búast við því að hingað berist þingmál frá fjármálaráðherra og að farið verði í þá vinnu sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum? Er það vegna þess að flutningsmenn tillögunnar treysta fjármálaráðherra ekki til að koma fram með slíkt mál? Hvers vegna er þingflokkurinn, þeir þingmenn sem leggja þetta fram, að fara fram með þessum hætti þegar það er alveg skýrt í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin ætlar að gera þetta?

Mér finnst svolítið óvenjulegt að stjórnarþingmenn séu að koma fram með slíkt mál sem er beinlínis til höfuðs máli sem er augljóslega í stjórnarsáttmála og ætla mætti að fjármálaráðherra myndi þurfa að flytja.