148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[18:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Má þá skilja þingmanninn þannig að við megum einnig búast við því að það komi þingmál frá ríkisstjórninni um sama mál?

Í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig fjarlægja megi fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.“

Þetta hljómar eins og tvíverknaður, nema þetta sé einfaldlega til þess að þeir ágætu þingmenn sem leggja þetta fram séu að segja hug sinn; að þeir vilji hafa það á prenti í þingskjölum að þeim hafi fundist þetta jafnvel þó að fjármálaráðherra komi ekki fram með neitt þingmál í þessa veru. Eða er þetta vegna þess að ekki er nógu sterkt eða fast að orði kveðið í stjórnarsáttmálanum sem sömu þingmenn samþykktu reyndar?

Fyrir okkur sem stöndum utan við stjórnarliðahópinn lítur þetta út eins og að stjórnarsáttmálinn sé þannig úr garði gerður að menn treysti ekki nákvæmlega á að allt sem þar stendur komi fram.

Ef ég man rétt, þó að ég sé ekki nú ekki með heitin á þeim málum í hausnum, hef ég grun um að fleiri mál svipaðs eðlis séu á leiðinni, að þessi sami þingmannahópur, svona nokkurn veginn, vilji kveða fastar á um hluti sem standa í stjórnarsáttmálanum. Þá fer maður að velta fyrir sér: Er það virkilega þannig að þingmennirnir treysta ekki ráðherranum til að leggja slík mál fram?

Það hljómar mjög fallega að fá þingið á bak við málið og skiptir vissulega máli. En við vitum líka að stjórnarfrumvörp sem koma frá ríkisstjórninni fá sérstaka meðferð hér í þinginu. Þau ganga fyrir öðrum málum, það er lögð áhersla á að afgreiða þau.

Ég hlýt að spyrja enn og aftur hvort við megum búast við því eða ekki að fram verði lögð þingmál frá ríkisstjórninni eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum, í raun um þetta sama málefni. Mun fjármálaráðherra eða e.t.v. annar ráðherra ekki leggja slíkt mál fram hér í þinginu? Ég spyr vegna þessarar þingsályktunartillögu.