148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[19:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við getum alveg verið sammála og örugglega samherjar í því að hvorugur okkar telst alla vega sérstakur aðdáandi verðtryggingar. Ég lít hins vegar á hana sem sjúkdómseinkenni myntarinnar, þ.e. að greiðslubyrði heimilanna af óverðtryggðum lánum hefur verið svo há að heimilin hafa leitað yfir í verðtrygginguna til þess að ráða við hana. Þannig hefur þetta verið í gegnum tíðina. Það er auðvitað vaxtakostnaðurinn sem við þurfum að vinna bug á fyrst og fremst.

Það sem ég velti fyrir mér varðandi þessa tilteknu lausn, af því mér sýnist hún í sjálfu sér vera nokkuð vel hugsuð, er að hér erum við að vísa til samræmdrar vísitölu þannig að þetta er vísitala eins og flestar Evrópuþjóðir geta sameinast um að mæla verðlag. Á endanum er þetta bara ákvörðun um það með hvaða hætti við ætlum að mæla verðbólgu og það sé samræmt í gegnum alla mælikvarða á verðbólgu og allar verðtryggðar skuldbindingar, hvort sem það eru lífeyrisskuldbindingar, lán eða annað þess háttar, að þetta sé gert með sama hætti. Þarna sé þá komin leið til þess að draga úr vægi húsnæðisliðarins eða hækkana á húsnæðisverði sem menn hafa gjarnan viljað ná utan um. Þess vegna held ég að í sjálfu sér hljóti þetta að leysa vanda ríkisstjórnarinnar, alla vega að skoða hvaða leiðir eru færar. Það má vel vera að það þurfi eitthvað að kanna hverjar afleiðingarnar eru.

Einmitt sem hluta af því hef ég velt því fyrir mér, og væri áhugavert að heyra skoðanir hv. þingmanns, að nú hefur fasteignaverð tilhneigingu til þess að hækka í uppsveiflu umfram verðlag en standa hins vegar gjarnan í stað eða jafnvel lækka á tímum niðursveiflu og halda þar af leiðandi aftur af verðbólgu. Þá snýr þetta kannski frekar að því hvenær hentug tímasetning er til breytinga sem þessara. Við stöndum alla vega býsna hátt í punkti hagsveiflunnar og fasteignaverðs um þessar mundir. Ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn tillögunnar hafi skoðað hvenær heppilegt væri að breytingar sem þessar kæmu til framkvæmda.