148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að gera að umtalsefni hetjurnar okkar í björgunarsveitunum. Við heyrum alla daga allan ársins hring talað um að þær hetjur séu að sinna mikilvægum og þörfum verkefnum. Þeim verkefnum fjölgar dag frá degi með fjölgun ferðamanna, fjölgun íbúa. Þar að auki hafa þær grunnþjónustustéttir sem reknar eru af ríkinu, eins og lögreglan, sem við ræðum hér á eftir, sjúkraflutningamenn, starfsmenn Vegagerðar og aðrir, fengið aukin verkefni sem þær ná ekki að bregðast við. Það kallar á aukna aðkomu sjálfboðaliða í björgunarsveitunum. Þetta þurfum við allt að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál.

Ég veit að fullur vilji er til þess hjá fólki í björgunarsveitunum að sinna þessu; það gerir það með gleði. Á sama tíma er orðið erfiðara fyrir björgunarsveitirnar að fjármagna starfsemi sína og líka dýrara að reka hana með fleiri verkefnum. Öllu er hægt að ofgera. Úthaldið verður kannski ekki jafn mikið og annað slíkt. Einnig er farið að bera á því í björgunarsveitunum eins og annars staðar, t.d. hjá lögreglunni og í sjúkraflutningum, að það góða fólk sem þar hefur starfað er að sjálfsögðu kallað til í ferðaþjónustuna til að fara í ferðalög upp á hálendið með ferðamenn og annað slíkt. Þegar kalla þarf til björgunarsveit eða lögregluna fæst bara ekki fólk í það. Það fólk er farið í önnur störf.

Við þurfum að huga að þessu. Mig langar að tala um þetta í dag þar sem við erum að fara að ræða um lögregluna. Ég veit dæmi þess að sjúkraflutningamenn hafa þurft að fá aðstoð til að komast inn á hálendið, en þá voru allir björgunarsveitarmennirnir í plássinu, sem oftast sinna mörgum störfum, þegar uppi á hálendinu með þann slasaða, þar sem þeir voru í verkefnum á vegum ferðaþjónustunnar.

Ég held að þetta sé nokkuð sem við þurfum að hafa í huga.