148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það gengur hratt á stutt vorþing. Í umræðum gærdagsins kom fram að fá mál væru komin frá ríkisstjórn og fjölmörg biðu. Þetta er umhugsunarefni en því miður ekki nýlunda.

Hætta er á hnökrum og mistökum í asa vorverkanna þegar þingmenn þrýsta eftir bestu samvisku létt á græna, rauða eða gula hnappinn. Dæmi um þetta var til umfjöllunar í frumvarpi í gær. Önnur alvarlegri þekkja þingmenn frá síðustu þingum. Enn og aftur er kallað eftir breyttum vinnubrögðum, betra skipulagi, og eins og oft er nefnt, minna fúski.

Það er afleitt þegar við afgreiðum í góðri trú út úr nefnd málefni sem ætlað er að þjóna sínum tilgangi sem lög en gera það ekki sem skyldi, umturnast jafnvel í mikilvægum atriðum. Ég nefni hér greiðsluþátttökukerfi sjúklinga sem tók gildi á fyrra ári eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni áðan. Kerfinu var ætlað að koma til móts við þarfir langveikra sem höfðu mikinn kostnað af heilbrigðisþjónustu. Að einhverju leyti hafa þau markmið náðst gagnvart almennum notendum. En breytingunum var einnig ætlað að koma til móts við tekjulága öryrkja og eldri borgara. Það markmið hefur ekki náðst. Öryrkjar greiða nú um 16% meira fyrir heilbrigðisþjónustu en áður og aldraðir um 25% meira. Þetta er galið.

Í frumvarpi heilbrigðisráðherra var upphaflega gert ráð fyrir greiðsluþaki þannig að sjúklingar greiddu aldrei meira en 92.500 kr. á ári fyrir heilbrigðisþjónustu. Í umfjöllun málsins boðaði ráðherra þó að greiðslurnar yrðu ekki hærri en 50 þús. kr. á ári. Þetta hefur fjarri því tekist. Greiðslurnar eru að minnsta kosti 70 þús. kr. á ári og sennilega hærri.

Því er mikilvægt og í þessu felst áskorun um að þingheimur sameinist um þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um gjaldfrjálsa heilsugæslu, að hámarksgreiðslur (Forseti hringir.) fyrir læknisþjónustu utan heilsugæslu verði aldrei hærri en 35 þús. kr. á ári og samhliða verði dregið úr hlutdeild aldraðra og öryrkja í kostnaði við tannlækningar.