148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fjalla aðeins um ríkisábyrgðir. Og þá ríkisábyrgð á Vaðlaheiðargöngum, sem er svo sem fínasta gat í gegnum fjall og ekkert um það að segja. En ég hef ýmislegt um ríkisábyrgðina að segja.

Nú hef ég reynt að spyrjast fyrir um ákveðna útreikninga á því hver ríkisábyrgðin er í raun og veru. Allir útreikningar sem við höfum fengið eru ekki réttir. Þeir miðast við ríkiskjör, þau kaup og kjör sem ríkið fær á lánum. Ekki samkvæmt markaðsvöxtum eins og segir mjög skýrt í lögum um ríkisábyrgðir.

Þeir útreikningar sem við höfum segja að lánið sem við höfum veitt kosti um 15 milljarða. Grófir útreikningar sem við höfum gert, sem eru í raun ágiskanir og ég hef verið að biðja um staðfestingu á frá Ríkisábyrgðasjóði og fleiri aðilum, hljóða upp á jafnvel 25 milljarða. Það er 10 milljarða kr. munur á því verði sem göngin verða seld á til rekstraraðila. Það er munurinn sem rekstraraðilinn getur í raun stungið í vasann miðað við það sem hann væri annars að borga af hærra láni, sem eru 25 milljarðar sem ríkið ætti að fá til baka út af þessari áhættusömu fjárfestingu.

Ríkið tók alla ábyrgðina á þessu. Þetta var mjög áhættusöm fjárfesting. Samkvæmt svari Ríkisábyrgðasjóðs sem kom fyrir síðustu ríkisábyrgð á þessari framkvæmd er þetta í spákaupmennskuflokki, eða „non-investment“, með rúmlega 13% vöxtum, ofan á seðlabankavexti.

Núna hef ég spurt um þetta í rúmt ár. Þetta var það síðasta sem ég gerði áður en kosningar voru í haust. Síðasta daginn, föstudaginn fyrir kosningar, ítrekaði ég við formann fjárlaganefndar þá að það ætti að koma svar við þessu, hvernig sem kosningarnar færu. Það liggur mjög skýrt fyrir að við eigum rétt á því að fá réttan útreikning á því hvað þessi göng kosta og hvað ríkisábyrgðin (Forseti hringir.) kostar. Það sem ríkið tapar á þessu hljóðar hugsanlega upp á 10 milljarða.