148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:06]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að það að ekki sé ófremdarástand í lögreglunni er að þakka því öfluga fólki sem þar vinnur og hugsjón þeirra. Það tryggir að þetta gengur ótrúlega vel miðað við aðstæður.

Ég vona að þessi góði samhljómur sem heyrist úr þessu ræðupúlti í dag skili sér inn í fjárlagavinnuna þar sem forgangsröðun fer fram. Ég hef ekki orðið var við þessa umræðu þegar hún fer fram hér. (Gripið fram í.)

Þetta er nauðsynleg umræða sem ekki er hægt að tæma á tveimur mínútum. Lögreglan er einn af hornsteinum lýðræðisins, grundvöllur þess að réttarríkið virki, og öflug löggæsla er forsenda þess að fólki finnist það öruggt í sínu landi. Ljóst er að fjölga þarf lögreglumönnum út af stórauknum verkefnum og breyttum aðstæðum hjá lögreglu. Þessi mál þarf að ræða út frá því hverju lögreglan eigi að sinna og hvaða þjónustustig við viljum hafa.

Þegar við höfum ákveðið það með samþykkt á löggæsluáætlun eigum við að vita hvað það kostar. Það er svo lögreglustjóranna að finna út úr því hvernig þeim verkefnum verði best sinnt. Það er ekki nóg að fjölga lögreglumönnum og tala alltaf bara um fjölda þeirra, hver lögreglumaður þarf ákveðinn búnað. Lögreglumenn þurfa að komast á milli staða og þurfa starfsstöðvar o.s.frv.

Við í þessum sal verðum að átta okkur á hvernig aðstæður lögreglu hafa gerbreyst. Íbúum landsins hefur fjölgað, íbúasamsetningin er orðin töluvert breytt, fjöldi gesta okkar hefur margfaldast og þetta gerir allt að verkum að þjónustuþegar lögreglu eru mun dreifðari um landið en áður var og hafa aðrar þarfir, m.a. inni á almannavarnasvæðum. Það eru mun fleiri í virkum athöfnum og því fleiri atvik sem koma til kasta lögreglu. Á sama tíma hefur umræðan um kynferðisbrot, heimilisofbeldi og mansal opnast og lyft þessum alvarlegu málum upp á yfirborðið. Því hafa verkefni lögreglu margfaldast í þessum málaflokkum og að sjálfsögðu viljum við að lögreglan geti sinnt þeim vel þannig að þolendur beri traust til kerfisins.

Þá hef ég ekki nefnt aukna skipulagða glæpastarfsemi, fjármuna- og efnahagsbrotin, tölvubrotin og margt fleira. Krafan um aukinn málshraða og meiri gæði rannsókna hefur aukist á sama tíma. (Forseti hringir.) Allt þetta kallar á aukinn mannskap, aukinn búnað og aukið viðbragð, breytt verklag og krefst forgangsröðunnar. (Forseti hringir.)Starfsaðstaða lögreglunnar verður að vera viðunandi svo fólk fáist til að sinna störfum lögreglu en um 10% lögreglumanna eru veikir heima á degi hverjum.