148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hér hafa verið nefndar tölur um fjölda lögreglumanna og er mönnum mjög umhugað um að hækka þá tölu. Ég tek heils hugar undir það. Það er nauðsynlegt að fjölga lögreglumönnum, einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum í tengslum við flugvöllinn, og að nokkru leyti líka á Suðurlandi, sérstaklega vegna fjölda ferðamanna.

Ég vil nefna það að í fjárlögum 2018 var 400 millj. kr. fjárframlag, sem hefur verið einskiptisframlag undanfarin ár, gert varanlegt. Gert er ráð fyrir 17 stöðugildum í þeirri fjárhæð. Það er eyrnamerkt 17 stöðugildum. Þess utan kveða fjárlögin á um 237 millj. kr. framlag eingöngu til meðferðar kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, sem hefur lengi verið á dagskrá og ég kynnti sérstaklega hérna. Af því að hv. málshefjandi nefndi að þetta væri einhver gúmmítékki sem ekki væri kveðið á um í fjárlögum, þá er nú öðru nær, sannarlega er kveðið á um það í fjárlögum. Því fé verður varið til 15 stöðugilda til allra lögregluembættanna, eða sex eða sjö stöðugilda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Það er rétt að hafa það í huga og það má ekki tala um þessi mál eins og ekkert sé verið að gera eða enginn hafi áhuga á því. Ég held að allir hér inni séu sammála um að fjölga lögreglumönnum, bæta hag lögreglumanna, auka tækjakost þeirra, sérstaklega bílana. Ég hef haft sérstaklega í skoðun breytt fyrirkomulag á bílum lögreglunnar sem er nú með sérstakan bílabanka. Ég hef áhuga á að auka fjölbreytni þar og gera þann rekstur hagkvæmari. Landamæravarslan er gríðarlega mikilvæg. Ég hef sett það á dagskrá og sett á oddinn fyrir næstu misseri, næstu vikur og mánuði, að fjölga og gera átak við landamæravörslu, bæði meðal landamæravarða og hjá lögreglunni í Keflavík.

Svo vil ég nefna það sem lögreglan sjálf segir mér, að þetta snýst ekki bara um krónur, þetta snýst líka (Forseti hringir.) um verklag og skipulag og að nýta krónuna sem best. Um það eru ég og lögreglan algjörlega sammála og samhent um að vel takist til.