148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

40 stunda vinnuvika.

165. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta var lagt fram á 144. löggjafarþingi, þá mál 259, og á 145. löggjafarþingi, þá líka mál 259. Því miður er þetta núna mál 165 en ekki 259. Ég hefði kannski átt að bíða aðeins með þetta, það hefði verið fallegt. En þetta er mjög mikilvægt mál. Miðað við þá umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum og fyrir kosningar tel ég þetta einnig vera geðheilbrigðismál. Það er ákveðið stress og streita sem við búum við í nútímasamfélagi þar sem vinnutíminn er orðinn dálítið öðruvísi hjá mörgum en hann var áður. Við erum sífellt tengd með snjalltæki og erum jafnvel miklu meira í vinnunni en við vorum áður. Þegar vinnutíma lýkur, þeim sem er talinn, erum við samt enn þá í vinnunni. Við kannski kíkjum á tölvupóstinn og svörum jafnvel og erum í raun að gera ýmislegt sem er ekki talið inn í klukkutímana okkar.

Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu og er því lagt fram á ný óbreytt en með aðeins ítarlegri greinargerð þar sem athugasemdum í umsögnum og ýmsu því sem gerst hefur í samfélaginu varðandi styttingu vinnutíma eru gerð betri skil.

Frumvarpið felur í sér þá breytingu að í hverri viku skuli ekki vera fleiri en 35 dagvinnutímar sem vinna beri á dagvinnutímabili á virkum dögum og að jafnaði skuli unnar 7 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags. Nú þarf ég að gera aðeins betur grein fyrir því hvað þetta þýðir. Síðan frumvarpið var lagt fram hafa komið athugasemdir um að hugsanlega þurfi að huga að því hvaða áhrif 8. gr. laganna um 40 stunda vinnuviku hefur á þá breytingu sem hér er lögð fram. Ætlunin með frumvarpinu er ekki að stytta vinnutíma og hækka taxta á sama tíma. Frumvarpið breytir því aðeins hversu margir dagvinnutímar eru á hverjum degi. Kaup og kjör standa að öðru leyti óbreytt en það þýðir að ef einhver vinnur áfram í 40 klukkustundir á viku eftir breytingarnar fær viðkomandi greiddar fimm yfirvinnustundir í stað fimm dagvinnustunda og myndi þá hækka í launum miðað við þá samninga sem unnið er eftir sem nemur mismuninum á þeim vinnutíma í launum. — Það er sem sagt ekki verið að gera þá kröfu að hækka laun á móti styttingu vinnuviku, bara skilgreina hversu margir dagvinnutímar eru í hverjum degi til þess að hafa það alveg á hreinu.

Samningar um kaup og kjör verða áfram í höndum samtaka launþega og atvinnurekenda. Eina breytingin sem þingið gerir er að segja hversu margir dagvinnutímar eru á dag. Þar af leiðandi gæti þurft að skoða aðeins hvaða áhrif 8. gr. laganna sem eru hér undir hefur en hún kveður á um að breytingar á vinnutíma hafi ekki áhrif á laun. Það getur verið mismunandi eftir því hvort um taxtavinnu eða mánaðarvinnu eða annað er að ræða. Ég býst við að það verði skoðað betur í nefndinni.

Þrátt fyrir að vinnustundum á ári hafi fækkað á undanförum árum er meðalvinnuvika á Íslandi um 40 stundir. Í skýrslum OECD, sem mæla jafnvægi á milli vinnu og frítíma, svona ákveðinn einkalífstíma, sést að Ísland kemur mjög illa út en þar er landið í 33. sæti af 38 þjóðum þegar kemur að lengd vinnutíma, og þar hallar verulega á karlmenn sem vinna mun lengur. Íslendingar eru síðan í 34. sæti í tíma aflögu til frístunda sem skiptist nokkuð jafnt á milli kynjanna. Þetta er mjög áhugavert. Bæði karlar og konur hafa álíka mikinn frítíma þrátt fyrir að karlar vinni mun fleiri yfirvinnutíma. Ástæðan er augljós. Konur eru að nýta það sem annars væri þeirra frítími í ýmislegt annað sem er þá ekki talið frítími og gefur ekki heldur af sér laun. Hér er mjög mikilvægt að huga að launajafnrétti kynjanna. En í tölum OECD fyrir árið 2016, um meðalársfjölda vinnustunda, er Ísland í 25. sæti með 1.883 vinnustundir á móti 1.363 vinnustundum í Þýskalandi, þar sem vinnutíminn mælist stystur, og 1.410 í Danmörku, sem er með næststystan vinnutíma. Tölurnar eru þó ekki að fullu samanburðarhæfar á milli landa. Ýmislegt er tekið þar inn í varðandi hvíldartíma og pásur. En þær eru þó samanburðarhæfar fyrir sama land á milli ára. Þannig er hægt að skoða hvernig staða lands breytist með tilliti til hinna landanna og fylgjast með meðalfjölda vinnustunda á milli ára. Í tölunum fyrir Ísland sjást til dæmis áhrif atvinnuleysisins í hruninu vel og hvernig meðalfjöldi vinnustunda eykst aftur. Það er erfitt að bera saman fjölda vinnustunda milli landa af ýmsum ástæðum en gögnin frá OECD eru samt þau bestu sem við höfum. Þegar fjöldi vinnustunda og jafnvægi milli vinnu og frítíma á Íslandi er borið saman við ástandið í öðrum löndum sjást greinileg merki um slæma stöðu Íslands. Þó að gögnin séu ekki mjög samanburðarhæf eru þetta bestu gögnin sem við höfum og þau benda til þess að staða Íslands varðandi vinnutíma sé mjög slæm. Meira um það aðeins síðar. Það eru fleiri gögn sem ég ætla að fara yfir.

En ég ætla að byrja aðeins á framleiðninni. Framleiðni á Íslandi er undir meðaltali OECD-landa, þrátt fyrir langan vinnudag, og hlutfall vinnu- og einkalífs er mun verra en hjá þjóðum sem eru með meiri framleiðni en Íslendingar. Þetta er þrátt fyrir að Ísland sé ríkt af auðlindum. Í Frakklandi, þar sem vinnuvikan hefur verið 35 stundir síðan árið 2000, er framleiðni talsvert hærri en á Ísland og er landið mun ofar í mati á jafnvægi milli vinnu og frítíma. Danmörk, Spánn, Belgía, Holland og Noregur eru efst á þessum lista. Í þessum löndum er vinnutíminn styttri en á Íslandi, framleiðnin meiri og hærri laun eru greidd nema kannski á Spáni. Að vísu var farið yfir það í fjárlaganefnd í morgun að við erum með ansi há laun ef við teljum þau í erlendum gjaldeyri enda hallar gengið dálítið þannig þessa dagana. En þrátt fyrir það er í raun mjög dýrt að vera á Íslandi þannig að þó að við mælumst hátt hvað það varðar er kaupmátturinn ekki endilega það hár á móti þar sem ýmislegt er mun ódýrara í þeim löndum sem eru í kringum okkur. Það er sem sé hvorki hægt að útskýra meiri framleiðni né hærri laun með löngum vinnudegi. Þvert á móti bendir margt til þess að styttri vinnudagur leiði til meiri framleiðni og aukinna lífsgæða. Aftur: Meira um það aðeins síðar.

Ég vil aðeins fjalla um það að ástæðan fyrir þessari breytingu er ekki bara töluleg. Við erum ekkert alltaf bara að taka ákvarðanir út af peningalegum hagfræðiforsendum, hvað skili aðeins fleiri aurum í budduna. Stundum verðum við líka að taka tillit til þess hvernig líf okkar er. Þá vísa ég aftur til geðheilbrigðismálanna sem ég ræddi í upphafi. Sá mælikvarði telur líka. Kostnaður af geðheilbrigðismálum, sá peningur, er oft ekki talinn með í hagtölum. Þeir peningar myndu nýtast betur ef ekki væri þetta stress til staðar eða ef hann færi í forvarnir. Við fórum yfir það fyrr á þessu þingi hverjar tölurnar þar eru.

Frumvarpið hefur áður fengið umsagnir. Umsagnir bárust á 145. löggjafarþingi. Þrír aðilar lögðust gegn samþykkt frumvarpsins. Það voru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda, aðallega með þeim rökum að Alþingi væri á einhvern hátt að skipta sér af rétti samtaka atvinnurekenda og launþega til að semja um kaup sín og kjör. Það sem frumvarpið gerir er bara að skilgreina hversu margir dagvinnutímar skuli teljast á dag og samtals á viku. Atvinnurekendur og launþegar hafa enn fullan rétt til að semja um kaup sín og kjör og vinnutíma. Því er einnig haldið fram að krafa um styttingu vinnuviku hafi ekki verið áberandi í kröfugerðum stéttarfélaga. ASÍ hefur hins vegar greint frá því, a.m.k. á nefndarfundi fjárlaganefndar, að það samningsatriði sé alltaf það fyrsta sem atvinnurekendur slá út af borðinu. Það sé því tilgangslítið að halda þeirri kröfu til streitu. Þar af leiðandi ætti að vera eðlilegt að málið komi til kasta Alþingis.

Hins vegar má nefna að í fréttum nýlega kom fram að Samtök atvinnulífsins væru hlynnt styttingu vinnuviku. Þau voru hins vegar hlynnt því að stytta bara yfirvinnutímana, sem er kannski augljóst í þeirra samhengi því að það eru dýrari vinnutímar en dagvinnutímarnir. Ég býst við jákvæðari umsögn Samtaka atvinnulífsins þó að þau leggi áherslu á að stytta yfirvinnutímana, sem þetta frumvarp myndi jafnvel fjölga ef fólk heldur áfram að vinna jafn langan vinnudag; að við séum þó sammála um að það þurfi að fækka heildarvinnustundum óháð því hvort við fækkum dagvinnustundum eða yfirvinnustundum. Það kemur út á eitt fyrir hinn vinnandi mann, að vinna færri vinnustundir óháð því hvort þær teljast yfirvinnu- eða dagvinnustundir.

Hlutlausar athugasemdir bárust frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi háskólamanna. Þar var talað um tilraunaverkefni sem væru í gangi og nefnd sem ynni að endurskoðun vinnutímaákvæða. Nú hafa verið gefnar út nokkrar skýrslur sem gefa til kynna að tilraunaverkefnin gangi vel og hafi jákvæð áhrif á starfsmenn og vinnustaði. Það dró til dæmis úr veikindafjarvistum, viðhorf starfsfólks til samræmingar vinnu og einkalífs varð mun jákvæðara og starfsánægja jókst.

Jákvæðar umsagnir voru mun fleiri. Þeir sem studdu frumvarpið voru umboðsmaður barna, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök psoriasis- og exemsjúklinga, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Jafnréttisstofa, Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík og Barnaheill.

Frumvarp þetta felur í sér að almennur vinnutími er styttur um klukkutíma á dag, eða úr átta klukkutímum í sjö. Markmið breytingarinnar er ekki að kjör skerðist við styttingu vinnudags og ekki er gert ráð fyrir því að vinnudagur styttist sjálfkrafa við þessa breytingu. Það þarf að huga að þessu tvennu í samhengi. Samkomulag um lengd vinnutíma og laun er á milli atvinnurekenda og launþega. Enda er grein í lögum um 40 stunda vinnuviku þar sem almennir samningar milli heildarsamtaka geta brugðið frá lögum um 40 stunda vinnuviku sem er óbreytt. Þetta setur ákveðinn staðal í þá samninga. Það eina sem þessi lög gera er að skilgreina fjölda dagvinnustunda. Að öllu öðru óbreyttu ætti starfsmaður sem vinnur áfram átta tíma á dag því að hækka í launum um sem nemur um það bil korters vinnu. Það er mismunandi eftir útreikningum hvers kjarasamnings fyrir sig.

Lög um 40 stunda vinnuviku voru sett árið 1971, munið þessa tölu. En það var fyrst árið 2012 sem meðalvinnuvikan varð 40 stundir. Breytingin árið 1971 skilaði mjög jákvæðum hagtölum, tekjur á mann jukust um 4–5% á ári að jafnaði næstu ár (að undanskildu einu ári að vísu), framleiðni á hverja vinnustund jókst um 20% á tímabilinu og árlegum vinnustundum fækkaði á tímabilinu um 5%. Þetta er að finna í Conference-Board. Economy database.

Markmið þessarar lagabreytingar er að auka markvisst framleiðni og lífsgæði launþega á Ísland með styttingu vinnuvikunnar. Þrátt fyrir að sumir ímyndi sér að færri vinnustundir hljóti að þýða minni framleiðni ætla ég að fara aðeins yfir það seinna að svo er ekki, en líkt og skýrslur OECD hafa sýnt fram á haldast ekki endilega í hendur lengri vinnutími og meiri framleiðni. Lífsgæðin mælast nefnilega ekki bara í hagvexti þó að ég geri alls ekki lítið úr því mælitæki.

Þessi breyting er í raun hvati til skilvirkni, ákveðinn hvati til samkeppnishæfni. Að fækka dagvinnustundum án þess þó að skrúfa upp taxtann á móti er í raun launahækkun ef fólk heldur áfram að vinna óbreyttan fjölda vinnustunda. Það hvetur þá atvinnulífið kannski til þess að verða hagkvæmara og skilvirkara á sama tíma og vinnustundum fækkar smátt og smátt. Það er ekki ætlunin að handstýra þessu eða taka handbremsubeygju og stytta tímann niður í 35 heldur er þetta hugsað sem skref-fyrir-skref breyting í kjarasamningum sem verður unnin á næstu árum. En þetta er frumkvæði sem við tökum með því að setja ákveðinn staðal. Miðað við gögnin sem ég er vísa í aðeins seinna ætti í raun að setja markið enn neðar. En við stígum kannski þetta skref fyrst og skoðum niðurstöðurnar.

Nú ætla ég aðeins að tala um samanburð á fleiri gögnum og fjölda vinnustunda. Alþjóðavinnumálastofnunin eða International Labour Organisation er með upplýsingar sem upplýsingaskrifstofa þingsins tók saman fyrir mig og gerði það mjög vel. Þar má finna fyrir Norðurlöndin, Finnland, Ísland, Danmörku, Noreg og Svíþjóð, meðaltal vinnustunda sem fastráðinn maður hefur unnið á viku á árinu 2016. Mikilvægt er að leggja áherslu á að þetta er, eins og liðurinn heitir á ensku „actual work“, þ.e. hvíldartími er ekki inni eftir því sem ég fæ best skilið. Þar kemur fram að í Danmörku er meðaltal vinnustunda 34 klukkustundir; 85% af vinnustundum á Íslandi. Í Finnlandi eru þær 36. Á Íslandi eru þær 40. Það passar miðað við tölur Hagstofunnar sem væntanlega koma þaðan. Noregur er með 35 og Svíþjóð er með 36. Allar Norðurlandaþjóðirnar, sem við miðum okkur oft við, eru einmitt á þessu tímabili, í kringum 35 stundir. Það hlýtur að vera markmið okkar líka.

Á vef OECD eru þessar tölur sem ég nefndi áðan með heildarfjölda vinnustunda yfir árið. Þar er Danmörk með 1.410 klukkustundir, Finnland 1.653, Ísland 1.883, Noregur 1.424 og Svíþjóð 1.621. Ef við miðum við að vinnuvikur á ári séu 26 þá, miðað við OECD-gögnin, eru vinnustundir á viku eftirfarandi: Danmörk 30,62 klukkustundir, það er tilfinnanlega minna en í gögnum Alþjóðavinnumálastofnunar; Finnland er með 35,9, sem er 0,1 klst. minna en í hinum gögnunum; Ísland er með 40,9, eilítið hærra; Noregur með 31 klukkustund, tilfinnanlega minna, og Svíþjóð er með 35,2 klukkustundir sem er svipað. Þannig að þessir tveir gagnabankar sýna fram á mjög svipaða stöðu Íslands, þ.e. tilfinnanlega fleiri vinnustundir, eins og við ættum alveg að vita og viðurkenna.

Nú er óhjákvæmilegt að tala aðeins um hina svokölluðu 8-8-8 skiptingu sem núverandi vinnumarkaðsmódel byggir á. Átta klukkutímar í vinnu, átta í lífið, fjölskyldu og áhugamál og svo átta klukkutímar í hvíld. En þessi hugmynd kom frá Robert Owen árið 1817, fyrir 201 ári. Þá bjó hann til þetta slagorð: Átta tímar í vinnu, átta tímar í hvíld og átta tímar í lífið, ef ég þýði það lauslega. Förum aðeins yfir það hvernig þessir átta tímar hafa síðan orðið að veruleika í löndunum hér í kringum okkur. Byrjum á einu. Fyrsta landið sem tók upp átta tíma vinnudag var Úrúgvæ. Það er ekki alveg í grennd við okkur. Það var 1915, 17. nóvember. Í Bretlandi var árið 1833 skilgreint í verksmiðjutilskipun að börn á aldrinum 9–13 ára mættu ekki vinna meira en átta tíma. Í Belgíu var átta tíma vinnudagur 1924. Í Frakklandi var það 1919. Í Þýskalandi 1918. — Ég er að vinna úr gögnum sem ég fann á Wikipediu þar sem þetta er tekið ágætlega saman. — Í Portúgal árið 1919. Í Rússlandi 1917. Á Spáni 1919. Á Íslandi 1971. Rúmum fimmtíu árum síðar. Við erum dálítið eftir á.

Annað sem ég hef minnst á er þetta jafnvægi á milli lífs og vinnu sem var fyrst notað í Bretlandi seint á áttunda áratugnum og í Bandaríkjunum 1986. Það snýst um að skoða þann frítíma sem fólk hefur á milli þess að sinna sér og sínum, vinum, ættingjum, áhugamálum og öðru, og því sem það er að vinna við. Eins og ég tók fram fyrr erum við þar meðal neðstu sæta á OECD-listanum. Það ætti að vekja okkur upp af vondum draumi. Ef markmið okkar í menntamálum er að ná yfir meðaltal OECD og síðan meðaltal Norðurlandanna ættum við tvímælalaust að stefna að því líka í vinnumarkaðsmálum. Þessi tala, 34. sæti af 38, er hryllileg, í einu orði sagt. Ég nefni aftur að stór hluti geðheilbrigðisvandans sem talað er um hér er álagstengdur. Við hljótum að verða að skoða alvarlega þessi tengsl og þá stöðu sem við erum í.

Áhugaverð rannsókn var gerð á sjötta áratugnum þar sem gerð var könnun meðal vísindamanna. Hún var gerð á Illinois Institute of Technology, eða IT, þar sem sálfræðiprófessorarnir Raymond Van Seltz og William Kerr skoðuðu vinnu starfsfélaga sinna. Þeir báru þá saman vinnustundir sem þeir unnu og greinar sem þeir gáfu út. Þessi grunnrannsókn hefur verið endurtekin þó nokkuð oft og sýnir mjög svipaðar línur. Fólk bjóst við að það væri einfaldlega bein lína á milli þess að þeim mun fleiri vinnustundir sem þú legðir í verkið, þeim mun fleiri greinar gæfirðu út. Bein lína, einni klukkustund meira, einni grein meira, eitthvað svoleiðis. En það var ekki þannig. Gögnin sýndu að línan var í laginu eins og M. Til að byrja með var mikil framleiðniaukning, sem er svo sem eðlilegt. Það að vinna einn eða tvo klukkutíma, ef þú vinnur samkvæmt línulegu hugmyndinni, er að vinna tvöfalt meira. En sú aukning á framleiðni stoppaði á milli 10 og 20 klukkutíma á viku. Þá fór hún niður á við. Minni framleiðni í kjölfarið. Vísindamenn sem voru með 25 klukkutíma í vinnu voru með jafn mikla framleiðni á klukkutíma og þeir sem voru með fimm klukkutíma á viku. Þeir sem voru í 35 klukkutíma á viku, sem er viðmiðið í þessari lagabreytingu, voru í raun bara með helmingi, ekki tvöfalt, með 50%, meiri framleiðni en þeir sem unnu í 20 tíma á viku. Þetta endaði þar sem við vorum með 60+ tíma á viku, þá var minnst framleiðni.

Nýlega kom út grein frá Hugsmiðjunni sem skipti yfir í sex klukkustunda vinnudag og ýmsar greinar sem gefnar hafa verið út nýlega sýna að heilinn, í hugmyndafræðilegri vinnu, er með þol upp á sex klukkutíma. Sex klukkutímar, jafnvel fjórir, er eitthvað sem getur verið ákveðið hámarksþol, jafnvel að vinna það í tveimur lotum eða annað. En við horfum allt of lítið til þessara vísinda þegar við tökum ákvarðanir um hvernig vinnutíma er háttað. Niðurstöður Hugsmiðjunnar voru þær að starfsfólk hafði getað nýtt styttri vinnutíma til aukinna samvista við börn sín og tekið virkari þátt í uppeldinu — mun ánægjulegra heimilislíf, fleiri gæðastundir með fjölskyldunni. Þar mældist 23% meiri framleiðni. Með tveggja klukkustunda styttri vinnudegi. 44% færri veikindadaga, hérna ætla ég aðeins að minna aftur á geðheilbrigðismálin, það er ekkert smáræði. Og 100% aukin ánægja starfsfólks, allir, hver og einn einasti. Það var meiri tími fyrir sjálfsnám og þróun í starfi. Fólk finnur eigin drifkraft í vinnunni, getur nýtt aukastundirnar til að svala forvitni sinni og fróðleiksfýsn, lesið og mætt á námskeið, stundað fræðandi og upplífgandi sjálfsnám. Það hefur jákvæð áhrif á líf hvers einstaklings og skilar hæfari starfskrafti. Og fólk fær einfaldlega bara tíma til að sinna sjálfu sér.

Við erum með þennan stóra, sítengda heim þar sem fólk á oft erfitt með að finna tíma fyrir sjálft sig, áhugamál sín, fjölskyldu sína. Þegar vinnudegi lýkur er bara að hlaupa í búð, elda mat, gíra fyrir háttatíma og henda sér svo upp í sófa og ná kannski að horfa á einhvern sjónvarpsþátt. Í okkar tilviki væri það líklega að lesa nefndarálit eða minnisblað fyrir næsta dag. Þetta frumvarp hefur ekki áhrif á okkur hér á þingi, það er ekkert sem kemur almennum vinnudegi við hér.

En þessi aukni tími til að stunda lífið hefur gríðarleg áhrif, ætti að hafa þau, á geðheilsu fólks, á líkamlega heilsu þess, sem eru illmælanleg í hagrænu samhengi. Það eru þessi illmælanlegu atriði sem við þurfum nauðsynlega að fara að huga betur að. Ég tel að Alþingi sé besti staðurinn til að gera það eins og er, að taka þessa stefnumörkun, vinna virkt að því að fækka vinnustundunum sem er líka aukinn hvati fyrir framleiðniaukningu, eða hagræðingu. Við sjáum á næstu árum fram á að tækniþróunin kemur til með að skila okkur meira og betra einkalífi; það er það sem verksmiðjuvæðingin og nú tæknivæðingin á að skila okkur; að vinna vinnuna fyrir okkur svo að við getum einbeitt okkur að okkar eigin hugðarefnum. Þau eru líka hagvaxtarskapandi; list, menning, skemmtiefni og hvað það nú er sem okkur dettur í hug að gera í okkar eigin frítíma. Þá fáum við að stjórna því frekar en að vera undir þessu lénsveldi, að vera skuldbundin áskriftinni að launamiðanum til að geta haft í okkur og á. Það leiðir hugann að borgaralaunaumræðunni sem hefur verið að aukast á undanförnum árum. Þetta er líka skref í þá átt að gera minni kröfur til vinnu fólks, skuldbindingar þess af lífi sínu.

Ekki gleyma því að í þessari 8-8-8-skiptingu er mjög undarlegt að þeir átta klukkutímar sem við gefum í vinnuna, sem er í raun ekki hluti af okkar lífi, eru þeir klukkutímar sem við förum í eftir hvíld. Það eru orkuríkustu klukkutímarnir okkar. Þegar átta tímar eru eftir erum við búin með orkuna. Þá eigum við samt að sinna fjölskyldu, krökkum, lífi, áhugamáli o.s.frv. Það er áhugavert að hugsa í þeirri skiptingu. Hún er heldur ekkert sanngjörn þótt hún hljómi sanngjörn: 8-8-8, voða jafnt og sanngjarnt, en er það samt ekki.

Ég vonast til að þingið fari að taka þessa umræðu alvarlega. Hugmyndin í umræddu frumvarpi er stytting niður í sjö klukkutíma á dag en vinnuvikan ætti í raun að vera styttri. Ég legg til þetta fyrsta skref. Ég mæli svo um og legg svo til að þingið taki þetta mál dálítið alvarlega. Því það tengist svo mörgum öðrum vandamálum sem við erum að glíma við.

Við skulum ekki týna þessu heldur fylgja því eftir.