148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

169. mál
[17:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Verður maður ekki að vera bjartsýnn, er það ekki það sem allir vilja leggja upp með? Auðvitað vildi ég gjarnan að þessi þingsályktunartillaga um þennan afmarkaða veg færi í hagkvæmnisathugun og fengi umfjöllun út frá þeim sjónarmiðum sem flutningsmaður dregur fram í þessari fínu greinargerð. En ég vil taka málið enn lengra. Það eru vegir vítt og breitt um landið sem eru orðnir eftirbátar nútímasamfélags á 21. öld.

Við getum tekið það til okkar, við öll hér inni og þingmenn fyrri kjörtímabila, að það er ekki í því lagi sem það á að vera. Það á ekki að hengja neinn fyrir það sérstaklega. Þetta hefur bara ekki verið í lagi. Við verðum að taka okkur tak. Við erum að taka okkur tak varðandi t.d. uppbyggingu háhraðatenginga. Við erum að taka á varðandi uppbyggingu flutningskerfis og endurnýjun á flutningskerfi í landinu og auka þátt jarðstrengja í þeim efnum.

Vegakerfið er bara ekki í lagi. Það er auðvitað orðin mikil þörf á viðhaldi á fjölförnum vegum hér út frá höfuðborgarsvæðinu. Það kallar á mikla fjármuni. En það má ekki gleymast að þessir vegir, þessi vegarkafli, eru malarvegir með djúpum holum. Eins og þingmaður sem var hér á síðasta eða þarsíðasta kjörtímabili nefndi eru þetta verri vegir en eru í Kákasusfjöllunum. Það er bara þannig.

Ég held að við öll, hvar í flokki sem við stöndum, eigum að horfa til þessara vegakafla og færa þá upp á 21. öldina og forgangsraða í þágu þeirra meðfram því sem við þurfum að styrkja flutningskerfið út frá höfuðborgarsvæðinu og tvöfalda vegi eins og Vesturlandsveg og á Suðurlandi.