148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[17:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Ég get um margt tekið undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Ég gerði það líka í gær þegar við áttum nákvæmlega sömu umræðu. Ég mun líka gera það á morgun ef þingmenn munu halda sömu ræður þá.

Vegna orða hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur rétt áðan ætla ég samt að skjóta því að fólki hvort við eigum að tala um hið háa Alþingi þannig að enn eitt árið einkenni fúsk vinnubrögð Alþingis. Þetta eru býsna stór orð um að þau einkenni vinnubrögð Alþingis. Vissulega held ég að hv. þingmaður hafi einhver dæmi um það sem hún kallar fúsk. En að tala um vinnu hins háa Alþingis sem fúsk, og að það hafi einkennt vinnubrögð þess síðustu árin, væntanlega áður en hv. þingmaður og við fleiri komum á þing, finnst mér dálítið djúpt í árinni tekið.

En ég óska eftir því að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) vinni hratt og örugglega að sínum góðu málum.