148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef verið í stjórnarandstöðu og verið í stjórnarliði og skil alveg ákallið eftir fleiri málum, ég skil það mætavel. Það ríkir ekki neyðarástand í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) Við getum líka spurt um magn og gæði í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ég skil vel óþol formanns Samfylkingarinnar við að reyna að koma sínu á framfæri í þessum ræðustól. En ég get glatt hann með því, og kannski hryggt hann um leið, að það er bara gott samstarf hjá þessari ríkisstjórn og ekki strandar á því að menn nái ekki saman um mál.

Til að koma í veg fyrir fúsk, eins og hér hefur verið sagt, tel ég mikilvægt að málin séu líka unnin vel í ráðuneytinu og gerð krafa til þess að þau komi hingað vel unnin. Það tel ég að verið sé að gera hjá þessari ríkisstjórn. Það er betra að fá fá og vel unnin mál, sem forgangsraðað er inn af hálfu ríkisstjórnar, og vinna þau svo hérna, í stað þess að uppfylla þarfir stjórnarandstöðunnar um að sturta inn málum bara til að geta sagt að hér séu ekki eingöngu (Forseti hringir.) mál frá stjórnarandstöðunni. Eigum við ekki bara að bíða og sjá og draga andann og fá málin vel unnin inn á þingið og ekkert fúsk?

(Forseti (ÞorS): Enn á ný biður forseti þingmenn um að virða tímamörk.)