148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er afskaplega áhugaverð umræða. Hér kom hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé upp í pontu og virtist miður sín yfir orðinu fúsk. (KÓP: Nei.) Það er ágætt að benda hv. þingmanni á að samkvæmt síðu Alþingis hefur hv. þingmaður sjö sinnum sagt að hér á þingi sé stundað fúsk við lagasetningu eða önnur störf, þannig að ég held að þingmaðurinn ætti aðeins að róa sig í vandlætingu varðandi orðaval annarra þingmanna.

Varðandi fúskið er rétt að benda á að í gær var verið að fjalla um lög um meðferð sakamála þar sem fallið hafði niður grein, sem var býsna nauðsynleg, um sakarkostnað, einmitt vegna þess að frumvarpi hafði verið hraðað í gegnum þingið.

Ég get líka tekið dæmi um fimm breytingar á útlendingalögum á einu ári frá (Forseti hringir.) því að þau lög tóku gildi, sem og lög um dómstóla, sem hefur þurft að leiðrétta eftir að þau voru sett.