148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Hér kem ég upp og segi að mér finnist hafa verið tekið djúpt í árinni með því að tala um að fúsk hafi einkennt vinnubrögð Alþingis síðustu árin. Þá koma hér stjórnarandstöðuþingmenn og segja að ég vilji setja orðið fúsk á bannlista. Þeir tala um að ég hafi notað orðið fúsk og sé miður mín að hafa nota það orð. Hér stend ég annan daginn í röð og tek undir með stjórnarandstöðunni um að hvetja ríkisstjórnina til þess að drífa nú mál til okkar. Stjórnarandstæðingar standa hér margir hverjir og dylgja um hvers vegna ekki komi fleiri mál. Hvort er ég að ástunda ný vinnubrögð eða stjórnarandstæðingar að snúa hér út úr orðum mínum? Ég veit það ekki. (LE: Ekki ég heldur.)

Ég veit ekki betur en að heilbrigðisráðherra hafi verið að funda með þingflokkum og hafi kynnt hvað hún sé að fara að gera. Þegar ég sat í stjórnarandstöðu kom aldrei ráðherra á okkar fund. Kannski er það dæmi um fyrstu skrefin í átt að nýjum vinnubrögðum. Ég er mjög sáttur við þau vinnubrögð. Ég vona að aðrir séu ánægðir með að fá hæstv. ráðherra á sinn fund. Og ég vona að við getum bara sameinast um það í eðlilegum kröfum, (Forseti hringir.) hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, (Forseti hringir.) dylgjulaust og af raunsæi og með nýjum vinnubrögðum. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÞorS): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk.)