148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talar um að vanda skuli til verka. Það er alveg rétt. Það er mjög gott að ríkisstjórnin hafi metnað til þess að vanda til verka. En hafi hún ætlað sér frá upphafi að vanda svona vel til verka, af hverju í ósköpunum er kynnt þingmálaskrá með 140 málum sem ekki stendur til að leggja fram?

Við eigum eftir 14 þingfundi fram að páskum. Við eigum eftir að ræða stór mál, eins og fjármálastefnu og fjármálaáætlun, sem ég hygg að þingið muni þurfa nokkuð drjúgan tíma til að ræða. Að loknum páskum eru 15 þingfundir fram að sveitarstjórnarkosningum.

Ég endurtek fyrri orð mín: Annað tveggja ætti ríkisstjórnin að endurskoða þingmálaáætlun sína og stytta hana verulega þannig að ljóst sé að þingið muni fá ráðrúm til þess að ræða þessi mál vandlega — af því vandvirknin þarf líka að vera þar, ekki bara í vinnunni í ráðuneytunum — ellegar ætti ríkisstjórnin (Forseti hringir.) að kalla eftir því að dagskrá þingsins verði endurskoðuð.