148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér var nefnt að þetta væri stuttur vinnudagur. Við ræddum hér vinnutíma, 40 stundir, og að fækka vinnustundum um einn tíma á dag. En að hætta hér á milli hálf sex og sex er nú bara mjög eðlilegt. Við teygjum aðeins úr þessu núna um klukkutíma til þess að við vinnum fyrir okkar háa kaupi á Alþingi og góðu kjörum.

Ég vil frekar fá færri og vel unnin mál frá ríkisstjórninni og forgangsraða þeim. Það getur vel verið að ríkisstjórnin þurfi að endurskoða þingmálaskrá sína. Það ber vott um skynsemi ef hún gerir það og horfist í augu við að hún nái ekki öllu í gegn. Ég held að ráðherrar ættu að skoða það, því að við sem erum í forsvari fyrir nefndir viljum líka vönduð vinnubrögð í nefndum. Það er ekkert víst að einhver mál fari í gegn þó að þau komi á síðustu stundu inn í þingið. Það þarf að taka tillit til allra í þessum efnum. Við viljum ekki vera með neitt færiband á þingi. Við viljum bara vönduð vinnubrögð og ekkert fúsk, hvort sem er í ráðuneytum eða í þingnefndum.